
Í ár verður þess minnst að 100 ár eru liðin frá stofnun Alþýðuflokksins – þess stórmerka stjórnmálaafls. Flokkurinn átti svosem ekki alltaf sjö dagana sæla, hreyfing kommúnista varð sterk á Íslandi og gerði lýðræðisjafnaðarmönnum erfitt fyrir. Flokkurinn átti lengi í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og þurfti að sitja undir miklum svikabrigslum frá vinstri vængnum fyrir vikið. Herstöðvamálið réði mestu þar um. Foringjar flokksins fengu oft mjög illt umtal. Alþýðuflokkurinn valdi leið vestrænnar samvinnu, rétt eins og aðrir krataflokkar í Vestur-Evrópu.
En þegar sagan er skoðuð sést að Alþýðuflokkurinn kom á starfstíma sínum að flestum málum sem horfðu til framfara fyrir alþýðu manna, réttindi þeirra og kjör.
Styrmir Gunnarsson gerir þetta að umtalsefni í grein á vefsíðu sinni. Aðalumfjöllunarefnið er þó Samfylkingin – sem kalla má arftaka Alþýðuflokksins í íslenskum stjórnmálum. Styrmir segir að helstu talsmenn Samfylkingarinnar hafi „ekki neitt lengur að segja um pólitík“ og hann spyr hvort „afmælisár Alþýðuflokksins verði líka eins konar dánarár Samfylkingarinnar?“
Það er erfitt að verjast þeirri tilhugsun að þarna hitti Morgunblaðsritstjórinn gamli naglann á höfuðið. Vandi Samfylkingarinnar er að hún virðist ekki hafa neitt fram að færa, kjósendur skynja ekki að hún eigi erindi, skilaboðin sem berast frá flokknum eru út og suður – þegar dofnaði yfir voninni um Evrópusambandsaðild var eins og flokkurinn missti sjálfan tilvistargrundvöll sinn, en þegar stjórnarskrármálið klúðraðist varð hún viðskila við stóran hóp kjósenda sinna.
Samfylkingin virkar hugsjónalítil og hugmyndalaus og endurnýjun í röðum flokksins er átakanlega lítil. Í þinginu er eins og flokkurinn velkist til og frá í pólitík dagsins, en hafi lítið til málanna að leggja umfram það. Komist hann í ríkisstjórn sýnist manni að lítils sé að vænta af honum nema einhvers konar teknókratisma fremur en umbótastefnu.
Greiningu flokksins á íslensku samfélagi virðist verulega ábótavant, að minnsta kosti bendir fátt til þess að flokkurinn sé fær um að koma með einhverja heildstæða stefnu fyrir næstu kosningar þar sem væri til dæmis tekið á vanda velferðarkerfisins og heilbrigðiskerfisins, jöfnun lífskjara og þar sem væri reynt að koma böndum á fjármálakerfið á Íslandi, braskið, græðgina og okrið – já, þar sem flokkurinn myndi einfaldlega færast nær þörfum og kröfum alþýðu manna. En þó svo væri er Samfylkingin í svo veikri stöðu að það er ekki víst að kjósendur myndu hlusta.