

Smávegis í viðbót um „Hafnartorg“. Maður heyrir að sumir spyrja hvort megi ekki byggja neitt nýtt í borginni? Þeir eru jafnvel kallaðir „afturhald“ sem gagnrýna tillögurnar.
Jú, en það sem sker í augu í þessu tilviki er metnaðarleysið. Þetta er sams konar arkitektúr og víða blasir við í úthverfum þar sem áherslan er á að byggja sem ódýrast og með sem mestum hraða.
Tilfinningaleysi fyrir staðháttum – að þetta er í miðri borg og nálægt höfn. Þessi hús líta þannig út að þau gætu verið hvar sem er. Þetta er á tíma þegar Reykjavík er að verða feikilega vinsæll ferðamannastaður – og að nokkru leyti erum við að læra að meta sérkenni borgarinnar í gegnum augu ferðamannanna.
Þeir hrífast af hinni lágreistu, marglitu, svolítið skrítnu byggð – það er ekki svo langt síðan að leit út fyrir að henni yrði mestallri rutt burt. Nú sér maður eftir því sem hvarf – mikið væri gamla Skuggahverfið skemmtilegt ef það hefði fengið að standa!
Svæði „Hafnartorgsins“ er býsna stórt og byggingamagnið mikið. Þetta er á einum fjölfarnasta stað í borginni. Því finnst manni furðulegt að teikningarnar séu gjörsamlega lausar við höfundareinkenni – þær hefðu alveg eins getað eins getað verið hannaðar af vélmenni sem hefði sirkað út meðaltal þess sem er verið að byggja nú á tíma mikillar húsnæðisbólu.
Það þarf enginn að segja manni að stétt arkitekta sé almennt hrifin af þessu – þótt heyrist fáar gagnrýnisraddir, kannski vegna samstöðu og hagsmuna stéttarinnar?
Svo er þetta í raun svo stórt og áberandi verkefni að það er varla hægt að láta verktaka og spákaupmenn ráða ferðinni – með úrræðalaus skipulagsyfirvöld Hefði ekki þurft að efna til alvöru samkeppni um byggðina á þessu svæði?
Er það ekki sjálfsögð aðferð til að kalla fram góðar hugmyndir? Eigum við skilið nokkuð annað en verðlaunaarkitektúr á þessu svæði?
Svo er náttúrlega eitt sem er dásamlegt þegar umræðan um skipulagsmálin hefst og Sigmundur Davíð blandar sér inn í hana. Þá er líkt og hún pólaríserist undir eins, sumir geta barsta ekki fengið af sér að vera á sama máli og hann. En málið fer strax að hverfast í kringum persónu Sigmundar. Þetta er náttúrlega eins frumstætt og hugsast getur – á Facebook sér maður fólk sem tekur sérstaklega fram að því sé í raun afar illa við það en í þessu tilviki neyðist það til að vera sammála Sigmundi.
