
Núorðið eru borgar-og bæjarmál afskaplega lítið pólitísk. Það var dálítið öðruvísi hér í Reykjavík á árum áður þegar borgin var kjarninn í valda- og aðstöðukerfi Sjálfstæðisflokksins og síðan um tíma eftir að R-listinn vann borgina og var þá einhvers konar forskrift að sameiningu vinstri afla (sem á endanum mistókst).
En málefni borga- og bæja snúast að mestu um hluti sem flestir eru sammála um að þurfi að vera í lagi – það er voða lítið svigrúm fyrir annað. Skóla, velferð, sorphirðu, götur. Það getur svosem verið ágreiningur um flugvöll, einstaka umferðarmannvirki og þéttingu byggðar, en í þetta eru ekki mál sem eru pólitísk, þ.e. skoðanirnar á þeim ganga þvert á flokka. Að sumu leyti er fáránlegt að í bæjarstjórnum séu meirihlutar- og minnihlutar sem reyna að leika hefðbundna pólitík – einatt kemur það bara afkáralega út.
Því er ekki skrítið að uppi verði fótur og fit þegar borgarfulltrar geta loks læst klónum í almennilegt pólitískt hitamál sem fjölmiðlar kynda rækilega undir. Og það meira að segja mál sem hefur þann eiginleika að hleypa grandvarasta fólki í algjöran trylling á svipstundu.
Og í borgarstjórn hefur ekki verið svona mikill hiti í áratugi, maður fær ekki betur séð en að borgarfulltrúar hafi nánast verið eins og umskiptingar, að minnsta kosti ef marka má þessa frásögn Stundarinnar:
Þið teljið að þið séuð ekki nasistar af því þið séuð góða fólkið.