

Grikkir hafa það einkennilega kosningakerfi að flokkurinn sem fær flest atkvæði í kosningum hlýtur í bónus 50 þingmenn – á þingi sem telur 300 þingmenn. Þetta er náttúrlega gert til að auðvelda myndun ríkisstjórna, en horfur eru á að það verði erfitt eftir kosningarnar sem fara fram á morgun.
Það má ekki á milli sjá hvor flokkurinn fær fleiri atkvæði, Syriza, flokkur Alexis Tsipras, eða Nea Demokratia, sem er flokkur ekki ósvipaður að gerð og íslenski Sjálfstæðisflokkurinn. Syriza virðist þó ívið sigurstranglegra – Tsipras biðlar mjög til ungra kjósenda, sem kusu flokkinn til valda í kosningunum í janúar síðastliðnum, að yfirgefa hann ekki og mæta á kjörstað. Kosningaþáttakan gæti ráðið úrslitum.
Tsipras hefur lýst því yfir að hann vilji ekki vinna með „gömlu flokkunum“, „spillingarflokkunum“, en Vangelis Meiramakis, nýr leiðtogi Nea Demokratia, segist vera reiðubúinn að vinna í þjóðstjórn með Tsipras.
En gengi Syriza hefur verið dvínandi og í vikunni sagðist Tspiras vera tilbúinn að starfa með Pasok, sem er gamli sósíaldemókrataflokkurinn, eða Potami sem er miðjuflokkur, stofnaður af þekktum sjónvarpsmanni gegn átakahefðinni í grískum stjórnmálum, ekki ósvipaður Bjartri framtíð.
Báðir þessir flokkar myndu líklega vera tilbúnir að mynda stjórn með Nea Demokratia. Stavros Theodorakis, formaður Potami, hefur þó sagt að það sé lítið vit í að mynda veika samsteypustjórn – það þurfi ríkisstjórn þvert á stjórnmálalínurnar.
Þetta gæti samt verið tæpt, því allir flokkar nema Syriza og Nea Demokratia, eru mjög fylgislitlir. Pasok, flokkur Andreasar Papandreou sem stjórnaði Grikklandi um langt árabil, mælist með fylgi á bilinu 5-7 prósent, en Potami er með í kringum 5 prósent. Gamli kommúnistaflokkurinn KKE líka með í um 5 prósent, en enginn vill nokkurn tíma vinna með honum.
Uppreisnarmennirnir gegn Tsipras sem yfirgáfu Syriza hafa ekki haft erindi sem erfiði og mælast með milli 3-4 prósent í flokki sem nefna má Alþýðufylkinguna.
Á hægri vængnum eru fasistarnir í Gylltri dögun með um 7 prósent samkvæmt skoðanakönnunum, en enginn vinnur heldur með þeim flokki. Sjálfstæðu Grikkirnir, eindreginn þjóðernissinnaflokkur sem var í síðustu stjórn með Tsipras, virðast ætla að þurrkast út af þingi.
Þröskuldurinn til að komast inn á þing er 3 prósent.
Nýrrar ríkisstjórnar bíða engir sæludagar. Hún þarf að framfylgja síðasta samkomulagi Grikkja við Evrópusambandið, taka til í efnahagsmálum, viðskiptalífinu og stjórnkerfinu – það er verkefni sem virðist nánast óhugsandi að náist samstaða um. Verður að segjast eins og er að Tsipras – nýi, utanaðkomandi vöndurinn – var furðu hikandi eftir að hann náði völdum í janúar.
