
Ég er mikill aðdáandi gyðinga og þegar ég kem í borgir er ég yfirleitt fljótur að leita uppi hverfi þar sem þeir búa. Margir uppáhaldsrithöfundar mínir eru gyðingar – mistrúaðir reyndar. Það er makalaust hvað gyðingdómur hefur alið af sér mikið af andlegu afreksfólki. Ég hef lesið mikið um sögu gyðinga, ferðast um Ísrael, fannst Jerúsalem svo heillandi þegar ég kom þangað að ég dvaldist í þrjár vikur, hafði upprunalega ætlað að vera þrjá daga. Að sumu leyti má segja að Jerúsalem sé sturlaður staður, en mótvægi við hana er Tel Aviv sem er eins og hedónísk borg í Kaliforníu.
En ég hef líka ferðast um svæði Palestínumanna. För þangað vakti hjá mér hrylling og sorg. Alls staðar blasir við kúgun og óréttlæti. Það er búið að slíta hjartað úr landinu. Íbúarnir eru ekki frjálsir ferða sinna. Þeir hafa ekki aðgang að vatni þeir mega ekki ferðast á vegum sem eru ætlaðir fyrir forréttindafólkið, þá sem eru að ræna landinu.
Mannvonskan er yfirgengileg og þetta getur af sér siðspillingu sem breiðist út um allt ísraelska samfélagið.
Það þarf að leita allra leiða til að brjóta á bak aftur þetta kerfi – sem er í rauninni ekki annað en nýlendustefna í sinni grimmustu mynd. Ályktun Reykjavíkurborgar um að versla ekki við Ísrael nær kannski ekki langt, en hún vekur ofsafengin viðbrögð í Ísrael. Þetta hittir greinilega snöggan blett og það er ágætt, veitir ekki af ef einhvern tíma á að stöðva hið linnulausa og svívirðilega ofbeldi sem eyðileggur mannslíf í Palestínu og rænir Ísraela sálinni.