
Menn geta talað af léttúð um framferði Ísraela í Palestínu. Mesta léttúðin er líklega sú að tala um gyðingahatur í þessu sambandi. Þá er umræðan leidd út í algjöra vitleysu, enda er tilgangurinn ekki annar en sá að rugla.
Í síðustu stórárás Ísraela á Gaza drápu þeir 504 börn. Nöfn þeirra og aldur má lesa á lista í breska íhaldsblaðinu Daily Telegraph.
Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna segir að Gaza verði óbyggilegt eftir 5 ár.
Svokallaðar landnemabyggðir á svæðum Palestínumanna halda áfram að breiðast út í trássi við alþjóðalög. Í raun er þetta ekki annað en fínt heiti yfir gróft rán á landi, verðmætum og vatni sem fer fram með vopnavaldi. Unnið er að því kerfisbundið að flæma Palestínumenn frá Jerúsalem. Löngum kallaðist svona framferði nýlendustefna – og það er hið rétta heiti.
Landránsbyggðirnar eru meira en hundrað talsins, eins og má lesa á vef ísraelsku mannréttindasamtakanna Btselem.
Viðskiptabanni Reykjavíkur á Ísrael kann að vera erfitt að framfylgja, en með því eru send skilaboð – og þau heyrast í Ísrael.
Það er gott.