

Ég skrifaði grein í gær um að á næsta ári yrðu ferðamenn á Íslandi orðnir 1,5 milljón. Líklega var full mikill bjartsýnistónn í þessu, því vinur minn einn tók úr mér loftið í morgun.
Hann sagði að nú væri krónan að verða alltof hátt skráð, Ísland væri að verða of dýrt fyrir ferðamenn og ferðaþjónustan væri hvort eð er bóla sem einkenndist af sama hugsunarhætti og 2007 – slá lán í bönkum eins og enginn væri morgundagurinn, gíra sig upp til að byggja hótel, kaupa rútur og stofna bílaleigur án þess að hafa nokkurt eiginfé.
Þetta muni allt hrynja.
En hér er einn sem nýtur ferðamennskunnar. Þetta er stór og dálítið veðraður fressköttur sem býr hér rétt hjá mér. Hann kom stundum að heimsækja okkur síðastliðinn vetur, en hefur líklega komist að því að hingað væri lítið að sækja.
Nú má oft sjá hann úti í Bankastræti þar sem hann er að pósa fyrir túrista. Þeir taka af honum myndir og klappa honum. En hann hefur engan áhuga á mér, einum af hinum innfæddu, mér finnst eiginlega að hann sé fullur fyrirlitningar gagnvart mér og mér tekst ekki að fá hann til að sitja fyrir á mynd.
Ég held hann sé hálfgerður snillingur þessi kisi, taki mörgu fólki langt fram í gáfum, og hér er hann meira að segja kominn á síðu sem nefnist The Cats of Reykjavik. Hann hefur fundið sér veiðilendur í ferðamennskunni eins og fleiri hér á landi.
