

Anja Reschke er einhver frægasti sjónvarpsmaður í Þýskalandi, hún er einn af stjórnendum fréttaþáttarins Panorama á ARD stöðinni. Reschke ávarpaði hlustendur í þættinum 5. ágúst, var ekkert að skafa utan af því, og hefur orðum hennar verið dreift víða.
„Ef þið eruð ekki þeirrar skoðunar að flóttafólk sé sníkjudýr sem má hundelta, brenna eða eyða með gasi, þá eigið þið að stíga fram og segja það. Sporna á móti svona orðræðu. Opna munninn. Taka afstöðu.“
Reschke sagði einnig að nú væri rasismi orðinn leyfilegur, í umræðum á netinu fengju ummæli eins og „skítug meindýr sem eiga að fá að drukkna“ fjölmörg læk. Þeir sem skrifa slíkt séu meira að segja hættir að fela sig bak við dulnefni. Heiðvirðir Þjóðverjar verði að berjast við slíku tali sem hvetji til árása á flóttafólk og magni upp ofsóknir gegn því. Slíkar árásir hafa farið mjög vaxandi í Þýskalandi eins og víðar.
Þetta getur ekki haldið svona áfram, segir Anja Reschke. Hatursumræðunni gegn flóttafólki verði að linna.