

Væri íslenskum sauðfjárbændum betur borgið innan Evrópusambandsins?
Maður hlýtur að spyrja eftir lestur greinar sem birtist á vefnum 641.is og byggir á úttekt Landssambands íslenskra sauðfjárbænda. Þar er sýnt fram á að verðið sem bændur fá fyrir afurðir sínar á Íslandi er afar lágt í evrópskum samanburði. Franskir sauðfjárbændur fá 60 prósent hærra verð en íslenskir sauðfjárbændur.

Nú eru styrkir til landbúnaðar hærri á Íslandi en í ESB – má spyrja hvort það geri gæfumuninn um að samtök bænda vilja ekki aðild að Evrópusambandinu? Ef verðið fyrir afurðirnar er jafnan miklu hærra hlýtur aðild að freista – eða hvað?
Í greininni er afurðastöðvum og milliliðum í landbúnaðarkerfinu ekki kennt um þessa stöðu, heldur er það smásöluverslunin sem er sökudólgurinn, að mati höfundarins. Semsagt verslanirnar á höfuðborgarsvæðinu.
Nú er það svo að bændur eiga í flestum tilfellum afurðastöðvarnar sjálfir og ættu því að geta greitt sjálfum sér hærra verð. En samt er það ekki raunin. Hvað veldur því ? Jú. Svarið er einfaldlega það að vegna gríðarlegrar stærðar tveggja helstu smásalanna þrúkka þeir verðið niður. Þegar aðilar sem ráða 80% af öllum smásölumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu, beita sér með þessum hætti, geta afurðastöðvarnar ekki annað en að tekið því verði sem boðið er og hætta ekki á að sitja uppi með kjöt sem þeir geta ekki selt. Aðgangur að markaðnum á höfuðborgarsvæðinu skiptir öllu máli. Ein af afleiðingunum af þessu er sú að ekki er hægt að bjóða bændum hærra verð en raunin er.
Þegar neytandinn sér svo verðmiðann á lambakjötinu í búðunum, þegar búið er að leggja á óhóflega mikið á vöruna, bölvar hann helvítis bændunum og kennir þeim um hátt verð. Er það sanngjarnt ?
Eru þetta sanngjörn viðskipti ?