

Það verður að segjast eins og er að margt er hæft í gagnrýni Sigmundar Davíðs Gunnlaussonar forsætisráðherra á þróun skipulagsmála í miðborginni í Reykjavík.
Hér á þessum vef hefur áður verið vakin athygli á stórkarlalegum áformum um byggingar á mótum Vonarstrætis og Lækjargögu – þar er byggt á því sem er árátta í samfélagi þar sem hver rúmsentimetri er mældur í peningum. Byggt stórt og frekjulega og út í ystu lóðarmörk. Fagurfræði og samræmi er látið lönd og leið.

Hin miklu byggingaráform við enda Tryggvagötu vekja líka ugg. Þarna er svæði sem vissulega má reisa hús á, en það er ekki sama hvernig það verður gert. Það er talað um skrifstofu- og verslunarhúsnæði (sem tæpast er mikill skortur á), en forstjóri Regins, fyrirtækisins sem ætlar að byggja þarna er heldur drjúgur með vöxt fyrirtækisins í stóru viðtali í Morgunblaðinu í dag.
Eftir því sem maður kemst næst á þetta að líta svona út:

Því miður er eins og lóðareigendur og byggingaverktakar hafi sjálfdæmi um hvernig nýbyggingar í Miðbænum líta út. Arkitektar spila með, enda fá þeir borgað fyrir. Í arkitektastéttinni er að finna afar litla umræðu um byggingastíl og þróun skipulags, með afar virðingarverðum undantekningum eins og bloggi Hilmars Þórs Björnssonar á Eyjunni. Og borgarbúar vita mest lítið um þetta – það er í raun stóreinkennilegt að ekki sé hægt að setja viðmið um hvernig skuli byggja í gamla bænum svo stórspilli ekki borgarmyndinni. En gróðinn og græðgin gengur fyrir, eða eins og Sigmundur Davíð orðar það:
Því stærra sem húsið er, og því ódýrara, þeim mun meiri verður hagnaðurinn. Þess vegna eru kríaðir út eins margir fermetrar og mögulegt er og þar sem fæst leyfi fyrir nýbyggingum er iðulega öll lóðin grafin út og stundum jafnvel grafið undan garði nágrannans (eins og dæmi eru um). Svo er byggt alveg að lóðarmörkunum.
Reykjavík er að verða mikil ferðamannaborg og ferðamenn eru að uppgötva í borginni fegurð sem margir borgarbúar hafa kannski ekki tekið eftir sjálfir. Ég heyri ferðamenn á götum bæjarins tala um að þeim finnst Reykjavík skemmtileg og sjarmerandi. En það sem heillar er hin sérstæða lágreista byggð þessarar norðurborgar, ekki karkterlaus hús sem gætu staðið í hvaða skrifstofuhverfi sem er. Það þarf að hlú að gömlu byggðinni – og vanda afar vel það sem er byggt nýtt. Því miður virðist mikil vöntun á því.
Sjá: Að byggja eins og enginn sé morgundagurinn – þarf ekki að skoða þetta í heild?