

Tvö ríki á Vesturlöndum stóðu betur af sér kreppuna 2008 en flest önnur, Noregur og Kanada. Bæði eru olíuríki, hafa sífellt orðið háð olíugróða – í Kanada er það svo að olíuiðnaðurinn hefur ráðið lögum og lofum um nokkurt skeið, Norðmenn þykja til fyrirmyndar um hvernig þeir hafa ávaxtað olíupeningana, sett í risastóran sjóð, sem þeir passa upp á að eyða ekki miklu af.
En nú er olíuverðið orðið svo lágt að bæði þessi ríki eru komin í vandræði. Efnahagur Kanada hefur skroppið saman tvo ársfjórðunga í röð og framtíðin þykir ekki björt – engin teikn eru um að olíuverðið hækki aftur í bráð. Kanada er líka mikill álframleiðandi, áliðinaðurinn í heiminum er í kreppu sem versnar líklega enn vegna ástandsins í Kína.
Í gær birtust tölur um aðatvinnuleysi í Noregi væri komið upp í 4,5 prósent og hefði ekki verið hærra í tíu ár. Norska krónan hefur fallið að meðaltali um 18 prósent gagnvart öðrum gjaldmiðlum og norski seðlabankinn hefur lækkað vexti tvívegis síðasta árið – og er búist við að vextirnir lækki enn í september. Tunna af Norðursjávarolíu kostaði 100 dollara um mitt ár 2014, en er nú á 43 dollara.
Maður spyr hvaða áhrif þetta hefur á fjölda Íslendinga sem vinna í Noregi. Það er að minnsta kosti ljóst að þeir fá minna fyrir norsku krónurnar sínar þegar þeir koma með þær til Íslands. Sumt fólk „pendlar“ á milli, vinnur í tímabundið í Noregi og kemur á milli til Íslands.
Á sama tíma er uppgangur á Íslandi. Ásgeir Jónsson hagfræðingur sagði í viðtali um daginn að líkur væru á að margir Íslendingar færu að snúa heim frá Noregi vegna niðursveiflunnar þar. Þá er líka hugsanlegt að verði minna fjör hjá Fylkisflokknum.
