

Fangelsi í Bandaríkjunum eru sum einkarekin, það er hægt að tala um fangelsisiðnað þar, eins ógeðslegt og það kann að hljóma. Fjölgun fanga í Bandaríkjunum hefur verið stöðug í mörg ár, ekkert land læsir jafnmarga þegna sína inni – og oft fyrir einhverjar smásakir. En margir hafa fjárfest í fangelsisiðnaðinum og græða á því. 25 prósent af föngum í heiminum eru í Bandaríkjunum þótt þar séu aðeins 5 prósent jarðarbúa. Fjárfestarnir eru meðal annars á Wall Street.
Kerfið er rotið í gegn. Þekkt eru dæmi um dómara, eins og þennan hér, Mark Ciavarella Jr, sem dæmdi ungmenni í fangelsi á færibandi og fékk á móti mútfé frá aðilum sem reka tukthús. Ciavarella þótti mjög strangur dómari, hér er ekki um að ræða neitt smáræði af sakfellingum, nei, fjögur þúsund dómar sem hann felldi voru á endanum ógiltir af hæstarétti Pennsylvaníu og Ciavarella sjálfur dæmdur í 28 fangelsi. En kerfið heldur áfram að lifa sínu lífi, einn þeirra sem hefur verið að berjast gegn þessu er forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders – sá sem kennir sig við jafnaðarmennsku og fyllir nú fundarsali út um öll Bandaríkin.
Ég rakst á sögu Ciavarella nýskeð og það minnti mig á annan dómara sem fór allt öðruvísi að. Hann var Vestur-Íslendingur og hét Guðmundur Grímsson – reyndar er hann kallaður Gudmunder Grimson á vef hæstaréttar Norður-Dakóta, en þar var hann dómari frá 1949 til 1958. Guðmundur var fæddur að Kópareykjum í Reykholtsdal 1878.
Á þriðja áratugnum var Guðmundur einn aðalmaðurinn í að koma upp um mikið hneykslismál. Ungur maður, Martin Tabert, frá bænum Munich í Norður-Dakóta ferðaðist um Bandaríkin. Hann var handtekinn í Talahassee í Flórída, ferðaðist án þess að hafa miða. Hann var sektaður um 25 dollara, foreldrar hans sendu fé til að greiða sektina. Allt kom fyrir ekki og Tabert hvarf inn í fangelsiskerfi þar sem hann gekk kaupum og sölum eins og fleiri ungir menn. Að endingu var hann hýddur af einum fangaverðinum, af svo mikilli hörku að það dró hann til dauða.
Guðmundur Grímsson frétti þessa sögu frá foreldrum drengsins og tók sér ferð á hendur til Flórida til að leita réttlætis. Hann eyddi tveimur árum í að rannsaka málið. Það fór svo að málið vakti þjóðarathygli og var skrifað um það í blöð út um öll Bandaríkin. Það fór svo að þetta ömurlega kerfi, að leigja fanga í vinnuþrælkun var lagt af. Það var þó til í einhverri mynd í Suðurríkjunum fram á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar. Tabert-málið átti mikinn þátt í að þetta þrælkunarkerfi var aflagt.
En svo verður að segja eins og er – margt í fangelsiskerfi Bandaríkjanna í dag minnir á þetta. Fátt er ógeðfelldara en að það sé gróðavegur að svipta fólk frelsinu og loka það inni.
