

Reykjavík er í tíunda sæti yfir vingjarnlegustu borgir í heimi í vali hins fræga ferðatímarits Condé Nast. Þar segir að borgin beri þess fagurt vitni hvernig Íslendingum hafi tekist að búa um sig í heldur fjandsamlegu loftslagi með „djúpri tilfinningu fyrir menningu, gáfum, fágun og vingjarnlegheitum“.
Jú, þetta eru stór orð, en þarna segir líka að gestrisnin sé stórkostleg hvert sem farið er. Reykjavík sé líka „hip“ og íbúarnir hafi gaman af því að skemmta sér.
Aðrar borgir sem komast á þennan lista eru Auckland, Búdapest, Kyoto, Edinborg, Brügge, Kraká, Queenstown, Dublin og Sidney. Hún er talin vingjarnlegust.
En þarna eru líka valdar óvingjarnlegustu borgirnar og þá syrtir í álinn.
Á þeim lista eru Cannes, Jakarta, Moskva, Kairó, Nýja-Delhi, Nairobi, Guatemalaborg, Guangzhou, Casablanca og svo er það Caracas í Venesúela sem er valin óvingjarnlegasta borgin. Segir að hún hafi einu sinni verið skemmtileg og heimsborgaraleg, en nú einkennist lífið þar af glæpum, skorti og lélegum lífsgæðum. Þar sé engum tekið með opnum örmum.
