

Grikkir þurfa að selja rekstur fjórtán flugvalla til þýska fyrirtækisins Fraport – það fyrirtæki rekur meðal annars flugvöllinn í Frankfurt. Það var Fraport sem bauð best í rekstur flugvallanna, en auðvitað vekur það efasemdir og tortryggni að fyrirtækið er þýskt – hjá því getur ekki farið. Með Fraport er gríska fyrirtækið Slentel, dótturfélag orkufyrirtækisins Copelouzos. Þar á meðal eru flugvellir í Þessaloniki, á Rhodos, Krít, Mykonos og Santorini. Í sumra eyrum hljómar það eins og algjör goðgá að afhenda ríkiseignir með þessum hætti, en þetta getur þó haft sínar jákvæðu hliðar ef að er gáð.
Margir af þessum flugvöllum eru hræðilegir, algjörlega til skammar í landi sem tekur á móti meira en 20 milljón ferðamönnum á ári. Þeir eru niðurníddir, viðhald á byggingum skortir algjörlega, það er varla nein veitingasala að heitið geti og lítið af verslunum.
Byggingarnar eru hálfónýtar og þær eru illa þefjandi. Santorini er einn mesti ferðamannastaður í Evrópu og núorðið samgöngumiðstöð fyrir fleiri fjölsóttar eyjar. En flugvöllurinn þar er hrein skelfing. Salernin eru þannig að maður getur helst ekki komið nálægt þeim vegna þess hve lyktin er vond. Í rými sem er ætlað fyrir farþega eru ónýtir stólar og borð, og það er varla hægt að fá ætan bita. Í fyrra fóru þarna um næstum 1,2 milljónir farþega.
Á Mykonos er þjónustan við farþega nánast engin, en rétt utan við flugstöðina hafa einkaaðilar sett á stofn litla veitingastaði þar sem flugfarþegar geta keypt kaffi og samlokur. Maður furðar sig á hinum ónýttu viðskiptatækifærum.
Gríska ríkið hefur ekki fé til að fjárfesta í innviðum, eða kannski skortir líka viljann, því það var heldur ekki gert meðan peningar voru til. Nýr flugvöllur var reyndar byggður í Aþenu vegna Ólympíuleikanna (annað sem á að reyna að koma í einkahendur eru byggingar frá tíma leikanna sem standa auðar og engum til gagns). En ástandið á öðrum flugvöllum getur ekki versnað við einkavæðingu, enda hefur þýska fyrirtækið gengist undir að verja nokkrum fjárhæðum í að endurbæta þá. Auðvitað er spurning hvort það er nóg, en í endurbótum felast örugglega viðskiptatækifæri, því nú stefnir í enn eitt ferðamannametárið í Grikklandi.

Hin ömurlega flugvallarbygging á Santorini. Niðurníðslan þar hefur verið algjör frá því ég kom þangað fyrst – löngu fyrir kreppu.