
Enginn hópur á Íslandi hefur verið jafn gjarn á það að vísa í þjóðarhag og stórútgerðarmenn – LÍÚarar eins og þeir hétu lengstum.
Þegar hagsmunum þeirra var ógnað skyldi það alltaf vera þjóðarhagur sem var undir. Og jú, þetta virkaði, Íslandi var löngum stjórnað með hagsmuni útgerðarinnar að leiðarljósi – um það bera vott endalausar gengisfellingar á árum – og er það að talsverðu leyti enn.
Enginn hópur á Íslandi hefur jafnmikil pólitísk ítök og stórútgerðin. Áhrifin minnkuðu aðeins á hinum glöðu bankaárum á fyrsta áratug aldarinnar, en eftir hrun hefur útgerðin að mestu náð vopnum sínum. Hefur nánast getað sagt ríkisstjórnum fyrir verkum.
Og enn er vísað í þjóðarhaginn. Það gerir Kolbeinn Árnason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (gamla LÍÚ) í grein sem birtist í morgun.
En, í alvöru, er eitthvað sem bendir til þess að útgerðin á Íslandi sé rekin með þjóðarhaginn í huga. Eru það ekki hagsmunir eigendanna sem ráða ferðinni?
Magnús Árni Magnússon skrifar um þetta á Facebook og segir:
Talsmenn útgerðarinnar tala mikið um að hagsmunir þeirra fari saman við hagsmuni „þjóðarinnar“. Það væri gaman að þeir útlistuðu það í smáatriðum hvernig það birtist. Þetta er vissulega atvinnugrein sem skilar tekjum eins og aðrar slíkar, en ekkert sem segir að hún sé rekin eitthvað frekar en aðrar með einhverja sérstaka „þjóðarhagsmuni“ frekar en viðskiptahagsmuni eigendanna í huga. Í mínum huga hafa talsmenn útgerðarinnar frekar þvælst fyrir augljósum hagsmunum þjóðarinnar, eins og inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þar hafa þeir valdið okkur borgurum og neytendum þessa lands miklum skaða áratugum saman. Einnig ætla þeir núna að reyna að fá stjórnmálamenn til að kollvarpa þeirri utanríkisstefnu að sýna samstöðu með bandamönnum okkar á Vesturlöndum sem hafa tekið að sér að tryggja fullveldi okkar með blóði ungmenna sinna ef þörf krefur, (því ekki ætlum við sjálf að úthella neinu blóði til að verja Ísland í stríði). Allt fas þessara útgerðarmanna er orðið eins og lítillar lokaðrar elítu sem telur að allt líf þjóðarinnar eigi að snúast um þeirra einkahagsmuni. Wake up sister. Þið eruð ekki upphaf og endir alls hér á þessu landi lengur.