

Manni hefði þótt það algjörlega óhugsandi þegar maður var að alast upp á tíma kalda stríðsins, að fáum áratugum síðar snerust stríðsátök í heiminum um trúarbrögð. Nei, maður hefði ekki trúað því.
En nú, aldarfjórðungi eftir að kalda stríðinu lauk, horfir maður upp á túarbragðastríð og – átök út um allan heim. Það sem fær mesta athyglina er stríðið í Sýrlandi og Írak, en staðirnir eru miklu fleiri.
Eitt hræðilegasta stríðið geisar í Miðafríkulýðveldinu þar sem hersveitir kristinna manna ofsækja múslima af mikilli grimmd. Mörg þúsund manns hafa dáið og moskur hvarvetna verið brenndar.
En ofsóknirnar eru á báða bóga. Guardian fjallaði nýlega um hlutskipti kristins fólks víða um heim, aðallega í ríkjum þar sem íslam er við lýði en líka víðar. Það er skelfileg lesning.
Eins og ég segi – þegar ég var að alast upp hafði maður ekki haft hugmyndaflug til að ímynda sér að trú yrði í framtíðinni aðaluppretta styrjalda og manndrápa. Maður hélt einfaldlega að slíkt heyrði sögunni til.

Trúarbragðastríð geisuðu í Evrópu á 16. og 17. öld og léku álfuna grátt. Í þrjátíu ára stríðinu voru heilu sveitirnar lagðar í auðn og mannfallið var ógurlegt.