
Sú Reykjavík sem nú er til er ólík þeirri Reykjavík sem ég ólst upp í. Hún er miklu skemmtilegri. Reykjavík var einhæf, daufleg og drungaleg. Þekktur rithöfundur sagði eitt sinn við mig að hann myndi einkum eftir rigningu og vondu molakaffi frá tímanum þegar hann var ungur.
Í skýrslu sem Velferðarsvið Reykjavíkur birtir kemur fram að í borginni er fólk með 131 ríkisfang. Það er heilmikið. 8,5 prósent borgarbúa eru með erlent ríkisfang. Og þá eru auðvitað ekki meðtaldir innflytjendur sem hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt.
Þetta sumar upplifir maður Reykjavík sem borg með alþjóðlegan svip – stað þar sem ríkir menningarleg fjölbreytni, borg sem er frjálslynd og dýnamísk. Þetta er umhverfi fyrir nýsköpun og grósku.
Ég var á Laugavegi áðan, bærinn iðaði af lífi. Þegar ég var kominn á móts við Vatnsstíginn sá ég sýn. Borg sem heldur áfram að batna með fleiri ferðamönnum, fleira fólki sem vill setjast hér að, fleiri tækifærum, meiri fjölbreytni. Kannski nær tala aðfluttra brátt 20 prósentum?
Þetta er björt framtíð, við þurfum ekki að óttast.