
Það er spurning hvort taki því nokkuð að skipta um forseta á næsta ári þegar einu enn kjörtímabili Ólafs Ragnars Grímssonar lýkur. Nú eru enn uppi vangaveltur um hvort hann bjóði sig fram aftur.
Það er ekki sérlega líklegt, en þá er að athuga að síðast þótti það ekki líklegt heldur.
Ólafur er búinn að vera svo lengi að eitt kjörtímabil til eða frá virðist ekki skipta miklu. Ég játa, ég man ekki í svipinn hvað tímabilin eru orðin mörg. Ég var ungur maður þegar Ólafur tók við.
Maður finnur heldur ekki neinn sérstakan áhuga á forsetakjöri nema þegar er gúrkutíð í fjölmiðlum – og maður verður heldur ekki var við að margir hafi áhuga á þessu embætti.
Eðli embætta eins og þessa er gjarnan þannig að þeir sem hafa mestan áhuga eru einna lökustu kandídatarnir. Þeir sem ætti sjálfkrafa að útiloka.
En svo talað sé í fúlustu alvöru, þá erum við enn með forsetaembætti sem er stjórnskipulegur bastarður. Í næstu kosningum væri hægt að kjósa forseta sem beitir neitunarvaldi vinstri hægri, en það væri líka hægt að kjósa forseta sem beitir því aldrei. Þetta er semsagt alveg undir geðþótta forseta komið. Ef marka má það sem Ólafur Ragnar segir nú væri hann tilbúinn að beita neitunarvaldi ef væru undir stórar ákvarðanir um sjávarauðlindina – eða hvað?
Auðvitað vita allir að þessu fyrirkomulagi verður að breyta, en ekki verður neitt úr neinu í endalausu þrefi um stjórnarskrána.
Annars verður að segjast eins og er að Ólafur hefur haft sig hægan í nokkuð langan tíma og í raun farið mjög lítið fyrir honum. Hann útnefndi Sigmund Davíð sem forsætisráðherra fyrir rúmum tveimur árum, stefna hans gagnvart Evrópu varð ofan á – það er líkt og með þessu hafi hann fengið metnaði sínum svalað, að minnsta kosti í bili.