

Óvíða er dýrmætt pláss jafn illa nýtt og á Vatnsmýrarsvæðinu í Reykjavík – nei, flugvöllurinn er ekki aðalatriði í þessari grein þótt hann komi við sögu.
Ég hef farið um þarna á hjóli undanfarna daga og það er merkileg upplifun. Í fyrsta lagi botnar maður ekkert í skipulaginu, hvers vegna allar akbrautirnar liggja eins og þær gera. Svo fattar maður að líklega eru þær skipulagðar út frá byggingum sem hafa ekki risið – og munu kannski aldrei rísa.
Stór bílabraut sker Vatnsmýrina þvera – og yfir hana er afskaplega erfitt að komast nema á sérstökum brúm. Staðsetning þeirra er hins vegar ekki alltaf mjög hentug. Þetta er það sem er kallað stofnbraut – það þýðir að helst ekkert mannlíf fær að þrífast í nánd við götuna. Mér hefur verið tjáð að um H.C. Andersen boulevard í Kaupmannahöfn og Sveavägen í Stokkhólmi fari fleiri bílar en um Vatnsmýri – við téðar götur er bæði hús og gangstéttir.
En þrátt fyrir bílagötuna stóru er gamla Hringbrautin ennþá til. Hún er á sínum stað, mestanpart óbreytt. Og þar fyrir neðan er ennþá til gamli vegurinn sem lá framhjá Umferðarmiðstöðinni. Hinum megin við hraðbrautina eru svo nýlegur og afar fáfarinn vegur sem liggur út í Nauthólsvík – þegar maður fer hann kemur maður að miklum gatnamótum og umferðarmannvirkjum en sér varla hræðu á ferli.
Og þá skilur maður: Þessi vegur átti að liggja að Samgöngumiðstöðinni sem til stóð að risi við Reykjavíkurflugvöll. Hún verður væntanlega aldrei að veruleika.
Og eins er það með allar göturnar nær borginni, þær taka mið af spítalanum stóra sem stendur til að reisa í og við Landspítalalóðina. En staðreyndin er að svo miklar efasemdir eru um þessa spítalabyggingu að hún rís varla nokkurn tíma á þessum stað.
Við höfum semsagt götur sem liggja að húsum og í kringum hús sem verða líklega aldrei til. Og jú, það er skelfing að klöngrast gangandi eða á hjóli yfir þetta allt.

Hluti af gatnafjöldinni í Vatnsmýri. Það vantar reyndar akbrautina sem liggur út í Nauthólsvík. Hún er engin smásmíð.