

Hér er merkilegt viðtal úr Newsnight á BBC. Viðmælandinn er Andy Haldane, aðalhagfræðingur Englandsbanka. Umræðuefnið í þessu broti eru hlutafélög.
Haldane segir að kerfi hlutafélaga, sem hafi reynst svo gagnlegt í sögunni, sé komið út í ógöngur í hagkerfi sem byggist æ meir á spákaupmennsku. Þetta sé alþjóðlegt vandamál.
Fyrirtæki eru að borga of mikið til hluthafa og of lítið til fjárfestinga og þetta veldur því að hagvöxtur og framfarir eru minni en ella. Þannig séu fyrirtæki að nokkru leyti að éta sjálf sig. Skammtímahagsmunir hluthafa gangi fyrir öðru.
Haldane segir þessi þróun hafi staðið í nokkra áratugi. Eftir stríð hafi venjulegir hluthafar átt bréf sín í að minnsta kosti sex ár, nú sé þessi tími minni en sex mánuðir – og reyndar séu líka til hluthafar sem eigi bréf sín í fáar sekúndur.