

Af og til hafa borist fréttir um að milljarðamæringurinn Bill Gates sé á Íslandi. Vísir flutti fréttir af því í fyrra að hann hefði komið á tónleika Justins Timberlake, en þær voru óstaðfestar – og enginn kom auga á Gates í ágúst í fyrra þegar tónleikarnir voru. Þetta var semsagt hið dularfyllsta mál.
Nú er Vísir aftur farinn að flytja fréttir af komu Bill Gates. Hann á að hafa látið setja upp heilt hestamannamót fyrir sig og fjölskyldu sína í Biskupstungum í gær. Engum var hleypt nálægt staðnum, segir í fréttinni.
Nú er hefur snekkja Pauls Allen verið í höfninni í Reykjavík undanfarna daga. Hún er risastór og er víst í aðra röndina rannsóknaskip. Allen hefur komið hérna í nokkur skipti, hann er stofnandi Microsoft ásamt Bill Gates.
Þetta eru ofurríkir menn og gefa mikið til góðgerðamála. Allen lagði fram stórar fjárhæðir í baráttuna gegn útbreiðslu ebólu og stofnun sem ber nafn Gates berst gegn malaríu.
Þetta er auðvitað ágætt. Gates er svo auðugur að hann færi létt með að borga skuldir Grikklands á einum morgni eins og þessum. Honum verður jafnvel einhvern tíma fyrirgefið fyrir control-alt-delete skipunina.
Það er samt eitthvað pínu dapurt við að halda sitt eigið hestamannamót og loka sig frá öllu öðru fólki. Eiginlega er erfitt að trúa að það sé skemmtilegt. Bill Gates lítur einhvern veginn þannig út að hann þyrfti varla annað en að segja upp húfu og sólgleraugu og þá myndi varla neinn þekkja hann á Laugaveginum.
