
Uppgangurinn hægri pópúlistaflokka á Norðurlöndunum heldur áfram og virðist vera óstöðvandi. Í Danmörku situr veik minnihlutastjórn í skjóli Þjóðarflokksins sem fékk 21 prósent í kosningunum í vor og er næststærsti flokkurinn. Í Finnlandi eru Sannir Finnar í ríkisstjórn, fengu 17 prósent í kosningum í apríl. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í Svíþjóð eru Svíþjóðardemókratarnir orðnir næststærsti flokkurinn með 23 prósent, aðeins Jafnaðarmenn eru stærri, Moderaterna, sem er stærsti borgaralegi flokkurinn, eins og það er kallað, eru með 20 prósent.
Þetta er uggvænleg þróun og því miður er hætt við að innflutningur flóttamanna frá Sýrlandi og Írak verði vatn á myllu þessara hreyfinga á Norðurlöndunum. Deilurnar um innflytjendur verða sífellt hatrammari og þær eru farnar að ráða pólitískum úrslitum og myndun ríkisstjórna.
Það er merkilegt að sjá að þróunin er öðruvísi á Íslandi þar sem vantraust á hefðbundnum stjórnmálaflokkum og mikill leiði á stjórnmálum, brýst fram í stuðningi við hina ofurfrjálslyndu Pírata. Eiginlega er það sérstakt fagnaðarefni. Enn örlar vart á hægriöfga- eða hægripópúlískum flokki á Íslandi og þótt sumir vilji halda því fram að Framsóknarflokkurinn hafi tekið að sér það hlutverk, þá er það ekki allskostar rétt. Sönnunargögnin fyrir því eru afar veik.