
Menn fárast nú yfir því að Ísland sé ekki með á fundum fimm heimskautaríkja, Rússlands, Noregs, Danmerkur/Grænlands, Bandaríkjanna og Kanada og sé ekki haft með í yfirlýsingu um fiskveiðar í Norður-Íshafi.
Segir í fréttum að óánægja sé með þetta í íslenska utanríkisráðuneytinu. Einhverjir gera jafnvel að því skóna að þetta kunni að tengjast hvalveiðum Íslendinga. Það er ólíklegt.
Skýringin er vísast sáraeinföld. Ísland á ekki land að Norður-Íshafi, lega okkar er einfaldlega miklu sunnar. Á þetta hefur margoft verið bent þegar menn fara með himinskautum í umræðu um að framtíð Íslands liggi á Norðurskautinu. Margt af því hefur verið á stigi furðulegra hugaróra.
Staðreyndin er sú að við eigum ekki hlutdeild hugsanlegu ríkidæmi þess – sem vonandi verður seint nýtt, umhverfisins vegna.
Við erum hins vegar í Heimskautaráðinu ásamt ofantöldum þjóðum, en þar eru líka Svíar og Finnar. Þetta eru samsagt öll ríki sem eiga eitthvert land norðan við heimskautsbauginn. Við Íslendingar rétt höngum á honum – hann sker Grímsey. Grímsey er á 66 gráðum norður – eins og úlpurnar – nyrstu stöðvar Rússlands, Kanada og Grænlands eru upp undir 80 breiddargráðu og jafnvel norðar.
Ríkin fimm hafa myndað með sér eins konar innra Heimskautaráð og Íslendingar eru einfaldlega ekki með í því, eins skítt og það kann að virðast.
Þetta er heldur ekki nýtt, eins og sjá má á þessari frétt RÚV frá 2010, þá voru Rússar, Kanadamenn, Danir, Norðmenn og Bandaríkjamenn að funda um heimskautamál án þess að Íslendingar væru með – eða Svíar og Finnar. Og þá mótmæltu Íslendingar líka.