fbpx
Sunnudagur 16.nóvember 2025
Eyjan

Grikklandsvinir

Egill Helgason
Þriðjudaginn 21. júlí 2015 16:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í hópi Grikklandsvina er ég einna minnstur bræðra. Ann landi og þjóð, finnst Grikkland vera einhver fegursti staður á jarðríki og veit að þar er mikil saga. Eitthvað get ég tjáð mig smávegis á grísku, lesið og skilið, ég kann líka að syngja nokkur grísk lög og er hrifinn af tónlistinni. Forngrísku kann ég sama og ekkert – hef eiginlega haft meiri áhuga seinni tíma grískri sögu, ja, hún er reyndar frekar löng líka og til að þekkja hana þarf maður að kunna dálítil skil á Býsansveldinu.

En þótt ég skrifi blogggreinar um Grikkland er það ekkert á við Sigurðu A. Magnússon sem kom fyrst til landsins ungur maður, á merkilegum umbrotatímum, talar grísku reiprennandi, syngur á grísku og dansar gríska dansa. Sigurður er með æðstu orður Grikklands, eina frá kónginum sem var settur af fyrir margt löngu og aðra frá lýðveldinu sem tók við.

Vinur minn grískur, mikill dansari, skoraði á mig að fara nú að dansa þegar ég kæmi næst til landsins. Ég held næstum að ég hljóti að verða við því.

Sigurður hefur þýtt nokkrar af hinum stórbrotnu skáldsögum Kazantzkis á íslensku og þess utan fjölda grískra ljóða.

Annar merkur Grikklandsvinur, sem í fyrra var heiðraður með orðu frá gríska ríkinu er Kristján Árnason, sem ekki fyrir alllöngu gaf út sýnisbók með þýðingum úr grísku, bæði forngrísku og nútíma grísku, undir nafninu Grikkland alla tíð.

Svo vil ég nefna heimspekinginn og kennarann Atla Harðarson. Hann hefur í seinni tíð gerst mikill áhugamaður um Grikkland, svo mjög að hann hefur þýtt talsvert af nýgrískum kvæðum og sett á bloggsíðu ásamt frumtextum. Fyrir mig hefur þetta verð afskaplega gagnlegt.

Grísk ljóðlist á tuttugustu öld og í lok hinnar nítjándu var afskaplega frjó, það er líkt og tungumálið með öllum sínum samsetningum hafi boðið upp í æsilegan ljóðaleik, mynd- og hugmyndaauðgin er með ólíkindum. Vinsælasta skáldið í nútíma grísku er núorðið Konstantinos Kavafis frá Alexandríu, en tvö grísk ljóðskáld hlutu Nóbelsverðlaun á síðustu öld – mjög verðskuldað – Giorgos Seferis og Odysseas Elytis.

Eins og ég segi, miðað við þetta starf eru nokkrar bloggfærslur heldur lítilfjörlegar.

Meðal þess sem Atli hefur íslenskað eru brot úr ljóðabálknum To axion esti eftir Elytis. Titillinn útleggst sem Verðugt sé. Þetta er nokkurs konar lofgjörð til Grikklands, Theodorakis hefur gert tónverk við kvæðin, en eins og Atli segir er ljóðmælandinn ýmist skáldið eða hreinlega landið.  Þetta er ekki auðvelt að þýða, en þarna fæst smá hugmynd um ríkidæmi grískrar ljóðlistar og hvað hún er einstök.

Gáfu mér málið mitt, hellenska tungu

Gáfu mér málið mitt, hellenska tungu –
fátæklegt kot, á ströndum sem tilheyra Hómer.
Fyrir málinu el ég önn og því einu,
á ströndum sem tilheyra Hómer.
Þar eru aborrar og kólguflekkir, hreggbarðar sagnir,
grænleitir straumar í bládjúpi hafsins,
allt sá ég, er sírenur mæltu hin fyrstu orð,
ljóma í iðrum mín sjálfs,
marglyttur, svampa og rauðleitar skeljar
með fyrsta hrollinum svarta.
Fyrir málinu el ég önn og því einu,
með fyrsta hrollinum svarta.
Þar eru granatepli og aldin af runnanum rjóða,
hörundsdökk goð og bræðrungar, frændur,
tæmandi olíu ofan í risastór ker –
úr gilinu ilmandi gustur,
tágavíðir og róðutré, sefgresi, engiferrætur
við fyrstu tíst finkunnar
sætlegur lofsöngur, Dýrð-sé-þér, í allrafyrsta sinn.
Fyrir málinu el ég önn og því einu,
Dýrð-sé-þér, kveðið í alfyrsta sinn.
Þar er lárviður, pálmar, reykelsisker og heilög angan
blessandi sverðin og byssur með tinnusteinslása.
Ilmur af grilluðu kjöti og brestandi skurn
á dúkuðum vínekrum jarðar
og Kristur upprisinn
þá kveðjuskot Hellena hljóma hið fyrsta sinni.
Leyndar ástir í fyrstu orðum Lofsöngsins.
Fyrir málinu el ég önn og því einu,
í fyrstu orðum Lofsöngsins.

Hér er svo annað brot úr To axion esti, flutt af tónlistarmönnum undir stjórn sjálfs Theodorakis. Í raun eitt af einkennislögum Grikklands.

https://www.youtube.com/watch?v=mH7dZJLqj7w

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Falleinkunn fyrir Guðrúnu – afturhaldið situr á þingi undir merkjum Sjálfstæðisflokksins

Orðið á götunni: Falleinkunn fyrir Guðrúnu – afturhaldið situr á þingi undir merkjum Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk