
Ég hef farið í gegnum stóra evrópska flugvelli síðustu daga. Þeir eiga það sameiginlegt að alls staðar er troðningur, alltof mikið af fólki, óþægindi, pirringur. Á frönskum flugvelli beið ég meira en klukkutíma eftir því að skila af mér tösku. Sit núna á Kastrup, hér gengur allt eftir skipulagi, en það er setið á öllum stólum í flugstöðinni og á gólfum út um allt. Kastrup er fínn flugvöllur en það leggur óþef af klósettunum.
Líklega er betra að ferðast bara í janúar.
En nú er sumar, háferðamannatíminn, og maður finnur að ferðamennskan er að komast að einhverjum þolmörkum. Ég staldraði við í París – þar tróðst maður um stræti meðal túristanna í miklum hita. Fyrir vikið verður þessi heimsins höfuðprýði eiginlega alveg sjarmalaus. Síðasta daginn fór ég á svæði í norðausturbænum þar sem aldrei kemur ferðamaður, það var betra. Hitinn var samt hryllilegur – miklu verri en í Grikklandi.
Það er sama ástandið í Róm, þar flaut ég í fyrra í fljóti af ferðamönnu gegnum Vatíkansafnið. Það gekk með því að maður hreyfði sig ekki nema með torfunni. Mér skilst að sama sé uppi á teningnum í Barcelona – þar er fólki núorðið verr við túrista en vændiskonur og utangarðsfólk.
Að sumu leyti er þetta auðvitað gott, tákn um hvað við lifum í raun góða tíma. Allur almenningur getur ferðast um Evrópu án þess að það kosti mikið og í mesta öryggi. Maður getur í raun ekki vonað annað en að þetta verði áfram svona. Eða hvað? Vandamálin eru líka legíó, átroðningur og svo má ekki gleyma því að ferðalög eru einn stærsti áhrifavaldurinn í loftslagsbreytingum.
Samt er maður í raun svolítið kjánalegur þar sem maður stendur í París og vill hafa borgina út af fyrir sig – kannski á þeim forsendum að maður hafi fyrst komið þarna fyrir næstum fjörutíu árum. Svona er þetta líka í viðtölum við fólk sem uppgötvaði Ísland áður en það varð svona mikill ferðamannastaður – það er virkar mógað vegna þess að það fær ekki lengur að hafa landið út af fyrir sig.
Menn kvarta mikið þetta sumarið undan álagi túrismans á Íslandi. Þar eins og víðar hefur tilkoma lágfargjaldaflugfélaga breytt ferðaþjónustinni – þetta er í raun stóri áhrifavaldurinn. Miðað við það sem er sums staðar túrisminn á Íslandi þó ekkert sérstaklega mikill. Og það sem meira er – þetta er frekar auðvelt að leysa með bættri skipulagningu og eftirliti, meiri fjármunum í greinina, og aukinni skattheimtu á hana. Það ber vott um furðulegt ráðleysi hjá stjórnvöldum að þetta skuli ekki vera algjört forgangsmál – hvers vegna eru menn að hugsa um álver á sama tíma og þessi rosalegi uppgangur er í ferðamennskunni og fé streymir inn í landið vegna hennar.