
Einu sinni þótti sjálfsagt að Landsbankinn starfaði í fallegum húsum miðri byggð. Engum datt annað í hug.
Landsbankahúsið í Reykjavík er dæmi um slíkt, en líka Landsbankinn á Akureyri, á Ísafirði og Selfossi. Öll eru þessi hús nokkuð svipuð að gerð, reisuleg, nokkuð klassísk, traustvekjandi.
Í Grikklandi er líka landsbanki og hann er í gömlum og virðulegum húsum í borgum og bæjum landsins, líkt og Landsbankinn hér heima. Og eins og hér eru þetta hús sem voru reist á fyrri hluta síðusta aldar, á tíma þegar bankar nutu enn virðingar, voru máttarstólpar samfélagsins.
En nú hafa viðhorfin breyst. Landsbankinn vill byggja hús í miðborg Reykjavíkur og menn verða alveg brjálaðir. Stungið er upp á því að bankinn flytji í hús sem hefur risið í svonefndu Hvarfahverfi í Kópavogi. Nafnið er réttnefni – óvíða á höfuðborgarsvæðinu er jafn villugjarnt og þar.
Þessi uppástunga vekur gríðarlegan fögnuð. Í stað þess að vera í miðju vill fólk fá þennan elsta banka Íslands lengst út í jaðar. Það má segja að með því sé bankinn settur í skammarkrók.

Landsbanki í hinum klassíska stíl á Ísafirði.

Húsnæði fyrir Landsbankann í öðrum stíl en á árunum þegar bankar nutu virðingar. Myndin er úr Kópavogsblaðinu þar sem húsinu við Urðarhvarf 8 er lýst sem „kreppuhöll“ og sagt að hún standi enn tóm.