

Samningur Bandaríkjanna og annarra ríkja við Íran getur reynst vera eitt merkasta diplómatíska plagg seinni tíma.
Íran er stórmerkilegt land. Það hefur mikla menningu og er að mörgu leyti gerólíkt nágrannalöndum þar sem arabíska er töluð. Íranir tala persnesku sem er indóevrópskt tungumál og hefur ríka bókmenntahefð. Síðari ár höfum við einkum fengist að kynnast menningu Írana í gegnum frábærar kvikmyndir sem hafa komið þaðan. Þeir eru vestrænni í hugsun en flestar þjóðir í Miðausturlöndum – og þar er nokkuð stór millistétt sem kærir sig ekki um túaröfgar og samkrull trúarbragða og pólitíkur.
Íranska byltingin á sínum tíma var skelfilegur harmleikur – og ekki síst afleiðing rangrar stefnu Bandaríkjanna sem lögðu allt undir í stuðningi við hinn óvinsæla og spillta keisara Resha Palavhi. En það má einnig segja að stjórnarfarið undir Palavhi hafi verið skárra en að sem var leitt yfir Írani á tíma Khomeinis erkiklerks.
En það var á tíma írönsku byltingarinnar og stríðsins í Afganistan, á árunum kringum 1980, að fór aftur að örla á því að íslamstrú væri pólitískt afl. Allt hefur það verið til mikillar bölvunar síðan þá.
Nú er kominn tími til að gefa veraldlegum og lýðræðislegum öflum í Íran undir fótinn. Samningurinn við Íransstjórn getur reynst einn sá þýðingarmesti í alþjóðapólitík í seinni tíð. Ísraelar og Saudi-Arabar eru ekki hrifnir. En Íran er í raun æskilegt bandalagsríki fyrir Vesturlönd í mjög ófriðlegum heimshluta.

Kvikmyndagerð hefur borið hróður Írans víða síðustu ár. Þetta er atriði úr myndinni Skilnaður sem hlaut Óskarsverðlaun.