
Ekki verður betur séð en að Ólafur Ísleifsson hagfræðingur hafi komist að kjarna máls í þætti á Útvarpi Sögu í gær. Ólafur nefndi tvö atriði sem stæðu sérstaklega í vegi fyrir bættum lífskjörum almennings á Íslandi. Annars vegar óréttláta útdeilingu auðlinda:
Annars vegar er það blikkfast að þjóðin má ekki njóta afraksturs af sínum auðlindum svo sem vert væri, og meira segja þegar það syndir hér inn nýr stofn, makríllinn, að þá er það forgangsmál að hann skuli gefinn á örfáar kennitölur.
Og hins vegar fáránlega dýrt og gráðugt bankakerfi:
Það er algerlega inngreipt inn í allt þetta stjórnmála apparat að það má ekki hagga við þessu bankakerfi, það er alveg sama hversu oft er bent á það, að bankakerfið starfar hér í skjóli ríkissins, það nýtur þess að vera í fákeppni, það nýtur þess að geta verðlagt sína þjónustu utan við allt það sem þætti siðlegt og boðlegt í okkar nágrannaríkjum, það nýtur þess að hafa sogað til sín hagnað upp á mörg hundruð milljarða í hrundu landi, það nýtur þess að það þykir ekkert athugavert við það að hagnaður banka sem sé mældur í hlutfalli við stærð þjóðarbúsins margfaldur á við það sem til að mynda gerist í hina mikla kapítalíska landi Bandaríkjunum, það nýtur þess að hér má ekki hrófla við þessari verðtryggingu, það nýtur þess að hér má ekki hrófla við vöxtunum, það nýtur þess að við erum hérna með einhvern Seðlabanka sem að lítur á það sem sitt aðalhlutverk að halda hérna uppi í gegnum ákvarðanir peningastefnunefndar okurvöxtum, hærri vöxtum heldur en nokkurs staðar þekkjast í okkar nágrannalöndum eða jafnvel á byggðu bóli.