
Krísan á evrusvæðinu er að nálgast epíska stærð. Nú heimta haukarnir í Þýskalandi með Schäuble í fararbroddi að Grikklandi verði sparkað úr evrunni í fimm ár – sem þýðir líklega að Grikkir eiga ekki afturkvæmt þangað inn. Ein krafa í viðbót er að Grikkir láti utanaðkomandi aðila selja ríkiseignir að virði 50 milljarða evra.
En það er finnska stjórnin sem lætur verst með Sanna Finna í fararbroddi. Þetta er hægriöfgaflokkur sem er kominn í ríkisstjórn í Finnlandi, sem sýnir glöggt hina uggvænlegu stjórnmálaþróun í álfunni. Timo Soini, formaður flokksins, hótar að fella stjórnina ef gengið verður að tilboði Grikkja.
Myndu margir halda að það sé kærkomið tækifæri til að losna við slíka óværu úr stjórn.
Frakkar og Ítalir eru hins vegar á annarri línu. Frakkar beinlínis hjálpuðu Grikkjum að setja saman tilboðið og róa öllum árum að því að bjarga þeim. Þeir lofa Tsipras fyrir að hafa getað komið tillögunum í gegnum þingið í Aþenu með miklum meirihluta. Sumir segja að þarna séu á ferðinni nokkurn veginn sömu tillögur og gríska þjóðin felldi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þó er gert ráð fyrir skuldaafskriftum – sem allir eru í raun sammála um að séu óhjákvæmilegar. Haukarnir vilja hins vegar halda áfram að leika leikritið um að Grikkir muni einhvern tíma borga með tilheyrandi þjáningum.
Merkileg er hún frétt Reuters sem segir að leiðtogar á evrusvæðinu hafi reynt að koma í veg fyrir að skýrsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um skuldir Grikkja yrði gerð opinber. AGS hefur tekið vel í hinar nýju tillögur Grikkjanna og sömuleiðis framkvæmdastjórn ESB og því héldu margir að þær yrðu samþykktar nú um helgina.
Sagt er að Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, hafi sagt við Angelu Merkel að nú sé komið nóg og Grikkir eigi ekki að þola meiri niðurlægingu. Bandaríkin eru á sömu línu og óttast óstöðugleika ef Grikkir hrökklast úr evrunni. Þeir beita Angelu Merkel miklum þrýstingi. Merkel er á milli steins og sleggju, annars vegar er almenningsálitið í Þýskalandi sem er andsnúið Grikkjum, Bild Zeitung og Schäuble, en hins vegar er möguleikinn á að hennar verði minnst fyrir að fara með evruna og jafnvel Evrópuhugsjónina í ræsið.
Í kerfi evrunnar er ekki gert neitt ráð fyrir því að ríki fari þaðan út aftur. Ef Grikkland verður rekið úr samstarfinu má spyrja hver komi næst – kannski Ítalía, eða Spánn? Allt virðist þetta stefna í hræðilegt klúður þar sem skammsýni ræður för.