
Nú er undirskriftasöfnun Þjóðareignar lokið með 51.296 undirskriftum. Það ætti í raun að þýða að fyrirhuguð kvótasetning makríls sé með öllu óhugsandi. Óhjákvæmilegt er að vísa slíku frumvarpi í þjóðaratkvæði þar sem það yrði nær örugglega kolfellt.
Frumvarpið er eitt dæmið um gönuhlaup ríkisstjórnarinnar – furðufréttir af álveri norður á Skaga eru annað. Og dæmin eru miklu fleiri.
Að sumu leyti skilur maður ekki þetta brölt, sem oftast helgast af undarlegri þjónkun við hagsmunaaðila. Eins og staðan er virðist nefnilega vera frekar bjart framundan í efnahagsmálum á Íslandi.
Það er myndarlegur afgangur af ríkissjóði, hagvöxtur er sagður vera 3,7 prósent, og gangi áætlanir um afnám hafta eftir verður hægt að gera skurk í að greiða niður skuldir ríkissins. Bjarni Benediktsson talar um að fara að afnema innflutningstolla.
Allt er þetta jákvætt og segir manni að engin þörf er fyrir makríkvóta sem yrðu aðallega settir til að eigendurnir gætu veðsett þá og ekki heldur fyrir nýja stóriðju.
Ríkisstjórnin kæmi miklu betur út úr því – og það bæri vott um meiri skipulagsgáfu – að einbeita sér að viðfangsefnum sem blasa við hverju mannsbarni.
Þar má nefna nauðsyn á að hlú að ferðamennskunni, sem nú er stærsta atvinnugreinin, setja um hana almennilegt regluverk og gæta þess að hún skili sínu til samfélagsins en sé ekki bara eins og eitthvað Klondyke.
Og líka nauðsyn þess að koma lagi á húsnæðismarkað sem er fjandsamlegur ungu fólki og efnalitlu.
Jú, og svo hið aðkallandi verkefni að stöðva hnignun heilbrigðisþjónustunnar, í raun þarf að endurreisa hana, allt í senn á sviði heilsugæslu, sérfræðiþjónustu og umönnunar.
Þess er svo auðvitað að vænta að með hinum batnandi efnahag að hagur almennings vænkist og laun hækki. Á því er ekki vanþörf. Laun á Íslandi eru almennt of lág – og lægstu launin skammarleg. Ríkisstjórnin geldur þess hins vegar að þorri kjósenda virðist telja að hún vinni fyrir sérhagsmunahópa fremur en að hag fjöldans.