
Kannanir hafa sýnt að stór hluti íslenskra ungmenna getur hugsað sér að flytja úr landi og taka sér bólfestu erlendis.
Í könnun sem var birt fyrr á þessu ári sagði að helmingur ungmennanna vildi helst búa í útlöndum. Þetta er athyglisvert.
Nú má jafnvel álykta að foreldrar séu á þeim buxunum að hjálpa unga fólkinu að komast út, að minnsta kosti ef marka má þróun íslenskra mannanafna.
Nöfnin sem foreldrar gefa börnum og eru vinsælust eru þau sem eru alþjóðlega gjaldgeng – já, alveg óíslensk. Nöfnin þvælast semsagt ekki fyrir börnunum ef þau flytja til útlanda.
Vinsælustu drengjanöfnin eru Aron, Alexander og Viktor, en vinsælustu stúlknanöfnin eru Margrét, Anna og Emma.
Þetta er miklu auðveldara en að þurfa til dæmis að segja útlendingum að maður heiti Egill.