
Jólatónlist væri ágæt ef jólin væru á fimm ára fresti. En heill mánuður af henni á árs fresti – það er að bera í bakkafullan læk. Þegar maður eldist koma jólin ört og títt.
Gísli Einarsson setur hér saman pistil um jólalög sem hafa hæpinn boðskap. En það má líka huga að tónlistinni sjálfri.
Ég kom í stórverslun í dag þar sem jólatónlistin var skrúfuð í botn.
Fyrst hið hræðilega lag sem hljómar einhvern veginn svona – með martraðarkenndum texta, svo árásargjarnan að mann langar helst að koma sér til múslimaríkis:
Ég vildi að jólin kæmu strax í daaaag… Ég vildi að alla daga væru jóóólll…
Næst hljómaði jólalag sem virtist vera nýlegt, líklega erlent lag en textinn íslenskur – þar var endanlega búið að hverfa frá þeirri reglu í íslensku að áhersla í orði sé jafnan á fyrsta atkvæði.
Þetta er kannski ekkert sérlega skemmtileg regla, og hún gerir íslenskuna síður sönghæfa en t.d. ítölsku – en svona er þetta nú samt og þegar er brugðið út af henni verður útkoman mjög ankanaleg.
Og svo þegar ég hörfaði út skáru í eyru enn meiri jólatónar, þar var hljómsveit að böðlast á jólasálminum fallega Nóttin var sú ágæt ein – kannski fallegasta íslenska jólalaginu – í ægilega þyngslalegri útsetningu.
Ég fór heim og hreinsaði eyrun og hugann með þessari tónlist sem er tignarlegri en mestallt jólatrumsið. Dásamlega stílhrein upptaka með einum mesta tónsnillingi tuttugustu aldarinnar. Það er raunar eitthvað við þessa tónlist sem er fjarska hátíðlegt. og ekki bara af því Bill Evans er svo vel greiddur og klæddur í jakkaföt. Evans var djassleikari en í gegnum leik hans heyrir maður líka enduróm frá Chopin, Debussy og Ravel.