

Ég hef ekki nennt að hafa mikla afstöðu til þess hvort fara eigi með börn í kirkju fyrir jólin. Er reyndar helst á því að börnin eigi að ráða þessu sjálf. Maður ætti að gera sem minnst af því að troða trú eða pólitík upp á börn. Það fer best á því að þau uppgötvi slíka hluti sjálf. Líklega er það þó fremur lítil trúarupplifun að fara í stórum hópi í kirkju, eins og börn eru oft fyrir jólin, uppnumin og spennt.
Í Langholtskirkju var efnt til friðargöngu í stað kirkjuheimsóknar – jú, það má alveg, en með sama fororði og hér áðan. Börn eiga ekkert að þurfa að fara í friðargöngur fremur en þau vilja. Og þau eiga heldur ekki að þurfa að syngja Imagine fremur en Jesú bróðir besti.
Það er samt athyglisvert að sjá viðbrögð eins herskáasta stríðsmanns kirkjunnar gegn vantrúaröflunum við þessari friðargöngu. Bjarna Randver Sigurvinssyni er mikið niðri fyrir þegar hann sakar stjórnendur Langholtsskóla um „andtrúarbragðatrúboðun“. Það sem situr helst í honum er textinn að laginu fræga, Imagine eftir John Lennon.
Nú hefur Imagine orðið alþjóðlegt friðarlag, varð það reyndar strax eftir að það var samið fyrir næstum hálfri öld. Lagið er sungið við ótal tækifæri þar sem fluttur er boðskapur friðar, á Times Square í New York á gamlárskvöld og við lokaathöfn Ólympíuleikanna í London 2012, en meira en 160 tónlistarmenn hafa gert sína útgáfu af laginu.
Í textanum eru eftirfarandi línur sem Bjarna Randver mislíkar svo mjög:
Imagine there’s no heaven
It’s easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Bjarni telur að þarna séu trúarleg tákn afgreidd út af borðinu „án þess að sé tekið tillit til vífeðms merkingarsviðs þeirra“.
Á maður þá að skilja það sem svo að himnaríki og helvíti séu aðeins tákn? Er þetta semsagt ekki veruleiki trúarinnar?
Er þá ekki fullkomlega óþarft að rogast með hugmyndir, þó þær séu bara táknrænar, sem ganga út á að menn stikni í helvíti um aldur og ævi fyrir misjafnlega alvarlegar misgjörðir – sumir bara fyrir að trúa ekki rétt – en aðrir verði aftur á móti hólpnir af því þeir trúa á réttan hátt?
Í trúarbrögðum sem boða heimsendi bjargast örfáir, flestir tortímast. Einhver hvimleiðasti trúflokkur sem nú er uppi eru wahhabbistar. Þar fara menn í heilagt stríð – og er umbunað með vist í paradís.
Það má reyndar segja, kirkjunni til hróss, að þar er æ sjaldnar minnst á helvíti – þótt himnaríki komi oftar fyrir í boðuninni.
Er þá einfeldningslegt, eins og Bjarni segir, að hugsa sér – ímynda sér – heim þar sem hvorugt er til?