

Kaffi Vest er ágætur staður, en þau eru þó ekki að finna neitt upp, því veitingarekstur í Vesturbænum stendur á gömlum merg.
Hann hefur þó ekki alltaf verið langlífur.
Einu sinni var á Hagamelnum staður sem kallaðist Haukur í Horni, en var stundum uppnefndur Laukur í Hori. Ég veit ekki af hverju – þetta var á tíma bjórlíkisins.
Ég kom aðeins einu sinni á þann stað. Það var eftir leik hjá KR. Vesturbæjarveldið hafði þá unnið sigur á öðru Reykjavíkurfélagi. Það bar til tíðinda í leiknum að spilandi þjálfari andstæðinganna skipti sjálfum sér út af kortéri fyrir leikslok.
Þegar við félagar mínir komum á Haukinn, strax eftir leikinn, sat hann þar inni og kneifaði bjórlíkið.
En svo virðist líka hafa verið þarna annar staður sem er flestum gleymdur. Eða man einhver eftir veitingahúsinu Vesturslóð á Hagamel 67. Segir í meðfylgjandi auglýsingu að þarna sé „veitingahús ykkar allra“.
Þetta er frá á tíma myntbreytingar og þarna kostar „hraðborðið“ (takið eftir orðaleiknum) 5000 krónur. Spurning hvort við þurfum aftur að fara að taka tvö núll aftan af krónunni? Það hafði ákveðin sálræn áhrif í stuttan tíma, þótt efnahagslega hafi kannski ekki verið neitt vit í þeirri aðgerð.
