

Ég skrifaði í fyrradag pistil þar sem ég velti fyrir mér möguleikanum á að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn næðu nægu fylgi til að halda áfram í ríkisstjórn eftir næstu kosningar. En þetta er auðvitað ósennilegt miðað við núverandi stöðu í skoðanakönnunum. Flokkarnir eru langt frá því að hafa meirihlutafylgi – þótt vitanlega gæti samanlagt fylgi sem er nokkuð innan við 50 prósent dugað vegna þess hvernig atkvæði dreifast.
Nú er fylgi stjórnarflokkanna tveggja samtals vel innan við 40 prósent. Framsókn hefur haft tilhneigingu til að hækka sig fyrir kosningar með alls kyns brellum, en Sjálfstæðisflokkurinn er í skrítinni stöðu – þriðjungur gamla kjörfylgisins er einfaldlega horfinn.
Það er líka spurning hvort hann kemur nokkurn tíma til baka. Ungt fólk þekkir ekki flokkshollustu, hefur engar sérstakar taugar til Sjálfstæðisflokksins umfram aðra flokka – og það dugir ekki lengur að dæla áfengi í ungmenni í Heimdalli. Slíkt spyrst bara illa út á Facebook og verður vandræðalegt.
Skoðum aðra sviðsmynd – stóran kosningasigur Pírata.
Píratar hafa reyndar gefið það út að þeir vilji að næsta þing verði stutt, fjalli bara um tvö mál, kosningar um aðildarviðræður að Evrópusambandinu og stjórnarskrá. Þetta er nokkuð vogað fyrirheit – myndu aðrir flokkar fara slíkan leiðangur með Pírötunum? Hafa þeir möguleika til að standa við þetta? Satt að segja er manni til efs að nema lítill hluti kjósenda sé tilbúinn að kjósa flokk á þessum forsendum.
Annað getur reynst erfitt fyrir Pírata, en það er að stilla upp á framboðslista. Pírötum hefur reyndar gengið ágætlega að gefa þau skilaboð að flokkurinn byggi á heild en ekki á einstaklingum. En það þarf samt að búa til framboðslista, hafa þar álitlega kandídata, forðast þá sem geta talist óheppilegir og gætu eyðilagt fyrir framboðinu í heild.
Svanur Kristjánsson prófessor, sem er genginn í hreyfinguna, segir að Píratarnir eigi ekki að halda prófkjör. Slíkt virðist raunar í fullkominni andstöðu við hugmyndir Píratanna um netfrelsi. Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður svaraði Svani og sagði að ekki komi annað til greina en að kjósa um frambjóðendurna með prófkjöri – Píratar „notist alfarið við þau“.
En gefum okkur að Píratar nái stórum hluta fylgisins sem þeim er spáð í skoðanakönnunum, að þeir verði ef til vill á stærð við Sjálfstæðisflokkinn. Það væru náttúrlega stórkostleg tíðindi í pólitíkinni á Íslandi – og í rauninni heimsfrétt.
Þá myndu Píratarnir bera höfuð og herðar yfir hina flokkana sem hafa verið með þeim í stjórnarandstöðu. Þeir rétta varla mikið úr kútnum meðan Píratarnir eru stórir. Pírati yrði forsætisráðherra. Sá þyrfti að mynda ríkisstjórn sem hefði nægan styrk til að beita sér fyrir róttækum kerfisumbótum – nokkuð sem stjórn Jóhönnu og Steingríms hafði ekki.
Svona stjórn þyrfti að hafa almennilegan meirihluta – það er tómt mál að tala um minnihlutastjórn Pírata eins og stundum hefur heyrst. Hagsmunahópar yrðu henni mjög andsnúnir – og stjórnkerfið hugsanlega líka. Hún þyrfti að glíma við alls kyns skuggastjórnendur sem eru lítt sýnilegir almenningi.
Það er spurning hvaða flokkar myndu vera tilbúnir að fara í slíka ríkisstjórn með Pírötunum – Samfylking, Vinstri græn, Björt framtíð? Hugsanlega þyrftu allir þessir flokkar að ná saman til að hægt verði að ná meirihluta á þingi og það er spurning hversu stöðug slík stjórn yrði.