

Jú, það eru tuttugu mánuðir í næstu alþingiskosningar, við erum ennþá á svæðinu sem kallast „mitt kjörtímabil“ – að því loknu getur margt breyst. En maður veltir samt fyrir sér hvort ríkisstjórnin eigi ekki möguleika á að halda velli þótt staðan í skoðanakönnunum sé ekki beysin.
Það er bullandi hagvöxtur og verður áfram næstu misserin, kaupmáttur eykst – skatttekjur flæða í ríkissjóð sem þýðir að ríkisstjórninni er í lófa lagið að eyða peningum í vinsæl verkefni þegar nær dregur kosningum. Það getur reynst ansi drjúgt.
Miðað við söguna ætti hin merkilega lífseiga Framsókn ekki að vera í teljandi vandræðum að sveifla sér upp í 17-18 prósent, jafnvel 20 prósent. Í síðustu skoðanakönnun sem birtist var Sjálfstæðisflokkurinn með 25,3 prósent.
Því má heldur ekki gleyma að í skoðanakönnunum er stór hluti kjósenda óráðinn.
Þarna spilar líka inn í hversu stjórnarandstaðan er sundurtætt – og hvernig fylgið dreifist. Miðað við stöðuna í skoðanakönnunum er hún mynduð úr þremur smáflokkum – og svo Pírötum. En það kæmi mjög á óvart ef fylgisbóla Píratanna hjaðnar ekki þegar nær dregur kosningum.
Það eru semsagt nokkrar líkur á því – með fyrirvörum – að ríkisstjórnin haldi velli í kosningum vorið 2017. Líklega yrðu úrslitin þó á þann veginn að höfð yrðu sætaskipti – Sjálfstæðisflokkurinn tæki við forsætisráðuneytinu.
Ef hins vegar stjórnin fellur, gæti verið úr vöndu að ráða. Þá gæti verið ómögulegt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þyrftu að kalla til þriðja flokk til að geta haldið áfram samstarfinu. Það er ekki víst að neinn myndi bjóðast til að vera þriðja hjól undir þeim vagni, ekki síst eftir þann garra sem hefur verið í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu.