
Eftir viku þar sem allt fór upp í háaloft í borgarstjórninni í Reykjavík vegna deilu sem er sífelld uppspretta óstöðugleika í alþjóðastjórnmálum, er allt í einu komið upp annað mál innan veggja borgarstjórnarinnar sem telja má pólitískt.
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, Áslaug Friðriksdóttir, sem margir hafa talið að hallaðist jafnvel fremur til vinstri innan flokksins, er í miklum móð eftir átökin og velur þennan tíma til að hasla sér völl með boðskap um einkavæðingu velferðarþjónustunnar.
Hugsanlega er þetta eins og guðsgjöf til hins umsetna borgarstjóra og meirihluta hans – það er alveg öruggt að einkavæðing velferðarinnar á mjög lítinn hljómgrunn meðal borgarbúa. Það er mál sem er einfaldlega ekki hægt að selja kjósendum.
En þetta skerpir línurnar á tíma þegar borgarfulltrúar eru yfirleitt sammála um flesta hluti, nema kannski flugvöllinn sem er fyrst og fremst tæknilegt úrlausnaratriði og gengur þvert á flokka.
Það er meira að segja erfitt að gera alvöru ágreining um fjármálastjórnina, enda er hægt að hafa orð sjálfs oddvita Sjálfstæðismanna, Halldórs Halldórssonar, fyrir því að fjárhagsvandræði sveitarstjórna stafi fyrst og fremst af ónógum tekjum.
Við viljum fá aðkomu að fleiri tekjustofnum, til dæmis varðandi ferðaþjónustuna. Sveitarfélögin kvarta undan því að tekjur af ferðaþjónustu skili sér ekki til þeirra. Það er samhljóða álit sveitarfélaganna að ferðaþjónustan skili nánast engu til þeirra.
Halldór má eiga það að hann er lítið fyrir að búa til pólitísk leikrit, enda er löngu orðið úrelt að borgar- eða bæjarstjórnir hópi sig saman í minni- og meirihluta.