
Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, er höfundur þessarar greinar – þarna er hún að leggja orð í belg í umræðu sem spannst um niðurhal á efni sem gildir um höfundarréttur:
— — —
Bjartsýnn kjánaskapur
Grein Helga Hrafns er fín og tæknilega upplýsandi (amk. fyrir okkur sem komum ekkert að því að búa til Internetið). Grein Egils er líka góð (þrátt fyrir að hann skilji ekki tæknina) því hann bendir á mikilvægustu hlið málsins; siðferði, réttsýni og heiðarleik. Þetta má snýst ekki bara um tækni.
Með fullri virðingu fyrir internetinu þá eru tæknilausnir, sem hafa gríðarleg áhrif á líf manna, engin nýjung. Geimferðir, erfðavísindi og kjarnorka eru lítil dæmi. Flestir átta sig á því að bönn leysa sjaldnast vandamál en líka á því að fullkomið frelsi skapar oft mikil vandamál. Á að banna erfðavísindi vegna þess að það er hægt að búa til barn með hala og horn eða verður bara að leyfa það af því að það er tæknilega mögulegt? (Þetta er vissulega öfgafullt dæmi)
Að stela höfundarverki er auðvitað ekki jafn alvarlegt og að misþyrma einstaklingum og þegar um einstaklinga og eigin notkun er að ræða má alveg kalla þessi brot frekar léttvæg. En að taka eitthvað í óþökk eiganda er stuldur hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sjálf hef enga samúð með ýmsum eigendum höfundarréttar, enda hafa margir þeirra farið illa með höfunda og valdið höfundarétti miklum skaða með græðgisdrifinni hegðun. En sú skoðun gefur mér samt ekki rétt til að stela.
Aftur með fullri virðingu fyrir interneti þá get ég ekki séð nokkurn mun á því að stela hlut í verslun, þegar enginn sér til, eða á því að hala ólöglega niður tónlist af því að enginn getur stöðvað það. Málið snýst um réttindi þess sem á og þess sem tekur, ekki um tækni. Það er ekki spennandi tilhugsun að lifa í samfélagi, þar sem hægt væri að koma í veg fyrir alla misjafna hegðun, frá stórglæpum yfir í smáþjófnaði. Hegðun sem við lítum mjög misalvarlegum augum, en viðurkennum samt ekki sem ásættanlega.
Eignarréttur og frelsi þess sem skapar áþrifanleg eða óáþreifanleg verðmæti er grundvallaratriði. Ef viðkomandi vill gefa og deila þá má hann það, ef ekki, þá má það líka. Við getum auðvitað verið á móti eignarrétti og höfundarrétti en það er önnur umræða.
Hvort mig langi til að greiða fyrir höfundarverk, líki við höfundinn eða eigandann, sé með einhverjar sérviskulegar reglur um að stela erlendu efni en greiða fyrir íslenskt efni kemur málinu ekkert við. Rökin um að eigandinn sé ekki að tapa neinu vegna þess að „ég hefði hvort sem er aldrei borgað fyrir þetta“ er stórkostlega frumleg réttlæting fyrir þjófnaði en rökeysa. Jafn skarplegt væri að segja „ég stel bara þessu bakkelsi, er í raun að gera bakaranum greiða því það hefði hvort sem er skemmst“. Eða: Unglingar komast óséðir í Bláa Lónið eftir lokun. Hefur eigandinn orðið fyrir einhverjum skaða því þau hefðu aldrei borgað hvort sem er? Má þetta kannski af því þetta er tæknlega mögulegt?
Ég held að eina færa leiðin sé að leggja áherslu siðferðisvitund, réttsýni og heiðarleika. Píratar mega gjarnan hætta að vinna í að færa þessar línur til með því að réttlæta óheiðarleika og smástuldi sem fjöldi fólks skýlir sér á bak við. Um leið mættu þeir gjarnan leggja meiri áherslu á heiðarleika á netinu og virðingu fyrir höfundum. Hversu stoltur sem maður er af internetinu (elska það) þá lýtur það auðvitað sömu siðferðislögmálum og aðrir „heimar“. Helgi Hrafn hefur örugglega hárrétt fyrir sér í því að höfundarréttarhafar verði að einbeita sér að öðrum leiðum en boðum og bönnum og því vonlausa verki að reyna að stöðva framrás tækninnar.
Sem betur fer fleygir tækni fram og mögulega verða komnar sjallar lausnir á þessum vandamálum innan tíðar. En á meðan við bíðum eftir því er besta leiðin að bera virðingu og leggja áherslu á heiðarleik í netheimi eins og annars staðar, með því að að stela ekki myndum, tónlist og forritum og kenna börnum okkar það sama. Fræðsla og forvarnir eiga við hér eins og annars staðar.
Það er svolítið sorglegt að Píratar velji þá leið að reyna að gera óheiðarleika og hugverkastuld (þó í smáum skala sé) að almennri og samþykktri hegðun. Sú leið vinnur gegn málstað þeirra sjálfra um mikilvægi heiðarleika, frelsis og gagnsæis á netinu (sem við erum örugglega öll sammála um). Það vinnur líka gegn þeim sem síst skyldi; frumkvöðlum og listamönnum sem er hópurinn sem einmitt syndir gegn straumnum, berst fyrir breytingum en alltaf er ætlast til að lifi á sköpunargleðinni einni saman.
Mér þykir augljóst að þessir tveir hópar eigi að hætta þessu þrasi og vinna saman að því að breyta hugarfari. En mögulega er ég bara bjartsýnn kjáni.