
Eldri borgarar er ekki slíkur hópur að hægt sé að segja að þeir vilji eitthvað eða óttist eitthvað. Eldri borgarar eru mjög sundurleit hjörð. Sumir eru efnaðir, aðrir eru blankir, sumir hafa mikla menntun, aðrir litla, sumir hafa ferðast mikið, aðrir minna – það er bara engin leið að alhæfa um þá. En mér skilst reyndar að þeir sem verða sextugir fái boð um að ganga í Félag eldri borgara.
Reyndar er þetta leiðinlegt orðskrípi af því mönnum finnst óviðkunnanlegt að segja einfaldlega gamalt fólk. En ef þetta eru allir sem eru yfir sextugu, þá er hópurinn býsna breiður, því meðal lífslíkour íslenskra karlmanna eru 81 ár en íslenskra kvenna næstum 84 ár. Fólk getur semsagt verið eldri borgarar í marga áratugi.
Reynsla þessa fólks er misjöfn, sumir eru nógu gamlir til að hafa upplifað heimsstyrjöldina síðari, en allir lifðu tíma kalda stríðsins, þegar kjarnorkuútrýming vofði yfir mannkynininu, og mörg þúsund bandarískir hermenn voru í Keflavík.
Það hefur semsagt ýmislegt misjafnt drifið á daga eldri borgaranna – og heimur þeirra oft verið viðsjárverðari en nú þegar við lifum á miklum friðartímum.
Að fullyrða að eldri borgarar óttist flóttamenn meira en aðrir er bara merkingarleysa. Svona fullyrðing stenst enga skoðun. Áður hefur reyndar verið reynt að beita fötluðu fólki fyrir vagninn gegn flóttamönnum með staðhæfingum um að koma flóttamanna muni á einhvern hátt bitna á fötluðum. Fatlað fólk hefur stigið fram og mótmælt þessu.
En nú er semsagt komið að hinum breiða hópi eldri borgara að vera fullir ótta eða það segir einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hvaða vitleysu fáum við næst?