
Fyrir mörgum árum villtist ég inn í partí sem var haldið á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi – í veislusal sem tengdist Rauða ljóninu. Þar var komið saman fólk sem síðar safnaðist í Samfylkinguna til að fagna kosningasigri Tonys Blairs sem þá hafði leitt Nýja-Verkamannaflokkinn til valda í Bretlandi.
Þetta var tími „þriðju leiðarinnar“ og þetta hafði mikil áhrif víða um Evrópu, og líka á Íslandi.
Nú eru uppi vangaveltur um hvaða áhrif kjör Jeremys Corbyn í formannsstól Verkamannaflokksins muni hafa á Íslandi. Þetta er ekki að ástæðulausu, stjórnmál í Bretlandi eru mikill áhrifavaldur á Íslandi – Thatcher hafði til dæmis meiri áhrif hér en víðast annars staðar.
Við lærum siði af Bretum – og þó oftar ósiði. Útrásarvíkingar og hrunverjar litu á London sem sína eiginlegu og andlegu höfuðborg.
En hvort Corbyn muni hafa áhrif hingað heim – ja, það er ekki víst. Það eru svo margir aðrir straumar í gangi í pólitíkinni. Píratarnir fara varla neitt í smiðju Corbyns og svo er annar meginstraumurinn hægra megin, þar sem grasserar andúð á útlendingum og alþjóðasamstarfi. Samfylkingin hefur reyndar formann sem hefur mjög blairískt yfirbragð og það er í litlu samræmi við tíðarandann.
Það er þá spurning hvort Samfylkingin geti fundið sinn Corbyn – þótt reyndar hafi enn ekki verið nein veisluhöld innan raða hennar eins og var þegar Blair var kjörinn.