

Grikkir voru komnir með ógeð á hefðbundnum stjórnmálamönnum þegar þeir kusu Syriza í janúar – til valda komst ríkisstjórn undir forystu Alexis Tsipras. Hún lofaði að gera alls konar hluti, hætta niðurskurði og bjóða lánadrottnum Grikkja birginn. Þessari ríkisstjórn mistókst ætlunarverk sitt fullkomlega, í tíð hennar versnaði ástandið í Grikklandi til muna. Það má vera að verkefnið hafi einfaldlega verið of stórt, en fyrirheitin voru það líka og svo má vissulega efast um hæfni fólksins sem þarna kom til valda og greiningu þess á aðstæðum.
En það er ljóst að ungu kjósendurnir sem flykktust til Syriza í von um öðruvísi pólitík finnst þeir hafa verið sviknir. Svo virðist sem stór hópur þeirra mæti ekki einusinni á kjörstað í kosningunum sem verða eftir viku. Aktívistarnir sem studdu Syriza eru óaktívir þessa dagana.
Tsipras boðaði til kosninganna til að styrkja umboð sitt eftir uppreisn vinstra megin í flokki hans. En hann virðist hafa misreiknað sig illilega. Það er gamli valdaflokkurinn, Nea Demokratia, sem nú sækir hart að flokki Tsipras. Munurinn milli flokkana er innan skekkjumarka og það sem meira er, Vangelis Meimarakis, nýr formaður Nea Demokratia sem átti bara að vera til bráðabirgða, þykir hafa staðið sig afar vel í kosningabaráttunni. Hann hefur slegið tón sanngirni og sátta sem höfðar til kjósenda.
Staðan í skoðanakönnunum er þannig að engin augljós leið virðist vera til að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar. Stór hluti Grikkja er þeirrar skoðunar að nú sé tími fyrir einhvers konar þjóðstjórn – önnur leið sé einfaldlega ekki fær. En Tsipras hefur sagt að hann vilji ekki vinna með gömlu flokkunum. Nú þegar fylgið dvínar er hann aftur farinn að herða málflutning sinn, svo minnir á tímann fyrir kosningarnar í janúar. Þetta er ekki sérlega trúverðugt ef litið er á feril Tsipras í forsætisráðuneytinu, þar sem hann annars vegar neyddist til að gefast upp fyrir Þjóðverjum og hins vegar láðist algjörlega að setja af stað umbætur sem þörf er á.
En Tsipras er svo sterkur að hætt er við að stjórn sem hann á ekki aðild að verði tæpast á vetur setjandi. Þjóðstjórnin virðist fjarlægur draumur svo líklegast er að þurfi að kjósa aftur innan tíðar. Það hjálpar ekki efnahagslífinu, enda ríkir mikil kosninga- og stjórnmálaþreyta í Grikklandi.

Vangelis Meiramakis er nýr formaður Nea Demokratia. Hann hvetur Alexis Tsipras til að mynda þjóðstjórn eftir kosningarnar sem fara fram 20. september en Tsipras segist ekki vilja það.