

5,2 prósenta hagvöxtur – það er ansi mikið. Og það er náttúrlega gleðilegt að þetta byggir ekki á lántökum eins og í gróðærinu mikla sem endaði 2008. Stóra breytan í þessu er ferðamennskan, það er vegna hennar að uppgangurinn er í efnahagslífi Íslands. Aukningin er meiri en spárnar gerðu ráð fyrir og ekki horfur á að neitt lát verði á, nema verði einhver stórkostleg áföll úti í heimi.
Umheimurinn hefur uppgötvað hvað er stutt að fara til Íslands og hvað er lítið mál að komast út í óspillta náttúru þegar hingað er komið. Ég þekki fólk í útlöndum sem hefði aldrei látið sér detta í hug að koma hingað, en er annað hvort búið að koma eða að ráðgera ferð á næstu árum.
Eitt er alveg augljóst varðandi þetta dæmi – nefnilega að við Íslendingar höfum ekki nægt vinnuafl til að sinna þessu. Við munum þurfa að flytja inn fólk til að vinna margvísleg störf. Innflutt vinnuafl mun streyma hingað til lands á næstu árum, rétt eins og á fyrstu árum aldarinnar, það er óhjákvæmilegt. Hlutfall fyrstu og annarar kynslóðar innflytjenda af íbúaatölunni var í fyrra 9,5 prósent af mannfjöldanum, nú blasir við að þetta hlutfall á eftir að hækka enn. Það er tómt mál að tala um að hér sé ekki pláss fyrir fyrir fleira fólk, þvert á móti, okkur vantar fólk.

Stöplarit sem sýnir fjölgun innflytjenda á Íslandi, af vef Hagstofunnar.