

Hriklaleg fegurð og hvergi mannveru að sjá. Grænland á björtum sumardegi með skyggni til allra átta.
Það er skömm frá því að segja að ég hef aldrei komið til Grænlands, bara flogið þar yfir oft og mörgum sinnum. Samt las ég Peter Freuchen í æsku og um frækna skíðaferð Fridtjofs Nansens yfir jökulinn og ýmsar barnasögur sem gerðust á Grænlandi.
Horfandi út um flugvélarglugga á þessa köldu fegurð vakti upp minningu um bókartitil – Milli Grænlands köldu kletta.
Stór er hann jökullinn og alls staðar ryðjast fram skriðjöklar, er ekki Jökulsárlón okkar bara hversdagslegt á þennan mælikvarða? Svo segja menn að þetta sé allt að bráðna – það er erfitt að trúa því þegar maður sér þetta svona, stærðina og víðátturnar. Þær halda svo áfram, yfir Davissund, Hudsonflóa og hinar hin endalausu óbyggðu flæmi í Norður-Kanada og þá staði sem norrænir menn kölluðu Helluland og Markland.



