

Ef marka ætti umræðu á Íslandi þá erum við örþjóðin algjörir sérfræðingar í að klúðra stórframkvæmdum. Jú, við höfum Landeyjarhöfn, Vaðlaheiðargöng – og nú fylgjast landsmenn hneykslaðir með því hvernig gengur á Keflavíkurflugvelli. Þar hefur verslunarrými fengið að sitja fyrir þægindum farþega.
En raunar er það ekkert sér-íslenskt. Af svipuðum ástæðum hafa lengi verið miklar deilur um flugvellina í kringum London. Þeir hafa verið reknir af einkaaðilum sem leggja svo mikla áherslu á að leigja út verslunarrými að um tíma komust farþegar varla út í vél. Af þessum sökum hafa fyrirtækin sem reka þessa flugvelli verið sérlega óvinsæl.
Það fer ekki endilega vel saman að reka samgöngumannvirki í senn í gróðaskyni og til að þjónusta almenning. Einu sinni þótti Íslendingum ægilega spennandi að versla í fríhöfninni í Keflavík, það var álitin mikil búbót – en hafa menn tekið eftir því hvað hún er orðin dýr í seinni tíð?
Keflavíkurflugvöllur er núna undir stjórn ISAVIA sem er hálfopinbert félag, einhvers staðar mitt á milli einka- og ríkis-. Vigdís Hauksdóttir þingmaður hefur ekki vandað ISAVIA kveðjurnar. Hún skrifaði:
Það er orðið súrríalískt andrúmsloft í Leifstöð sem ISAVIA ohf ber ábyrgð á. Þetta er einmitt sama flugstöðin sem kolféll á öryggisleitarprófinu – sumir eru límdir við stólana sína sama hvað gengur á…
Það er varla skýring að ISAVIA hafi verið „tekið í bólinu“, það eru orðin sem ráðherra ferðamála notar um íslensku ferðaþjónustuna, líkt og hér hafi menn verið alveg sofandi fram á þennan dag. En svo má reyndar benda á að það er víðar á Íslandi að eru vandræði með flugstöðvar.
Við teljum yfirleitt að Þjóðverjar séu frábærlega skipulagðir og hæfir í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur. Þó kann að vera að það sé misskilningur. Skoðum til dæmis nýju flugstöðina í Berlín, Brandenburgarflugvöll, sem átti að opna 2012. Það var meira að segja búið að bjóða til opnunarhátíðar – sem var hætt við á síðustu stundu. Það kom nefnilega í ljós að flugstöðin var brunagildra. Flugvöllurinn er ennþá lokaður. Kostnaðurinn við hann er orðinn 6 milljarðar evra, um flugvöllinn áttu að fara 27 milljónir farþega á ári – þetta er afar vandræðalegt eins og segir í grein fréttaveitunnar Bloomberg. Miðað við núverandi áætlanir er gert ráð fyrir að fyrstu farþegarnir fari um Brandenburg 2017, en það er allsendis óvíst.
