fbpx
Sunnudagur 16.nóvember 2025
Eyjan

Velkomin til Evrópu – ekki góður dagur á Kos

Egill Helgason
Miðvikudaginn 22. júlí 2015 23:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páll Stefánsson ljósmyndari hefur dvalið meðal flóttafólks sem streymir til Grikklands frá Sýrlandi og Írak. Þessi tvö ríki eru í algjöru uppnámi – flóttamannavandinn er skelfilegur. Gríðarlegur fjöldi er í Tyrklandi og þaðan streyma þeir í átt til Evrópu. Þetta skapar mikið álag í Grikklandi, sérstaklega á eyjum sem eru í nánd við Tyrkland – þar er sums staðar örstutt á milli.

Páll lýsir ástandinu á eyjunni Kos í grein sem lesa má á Vísi – eyjan hefur löngu verið þekkt sem fallegur og glaður sumardvalarstaður. Páll kallar hana „sælueyju“.  En ferðamennirnir láta ekki sjá sig nú, heldur er allt yfirfullt af flóttamönnum. Aðstaðan til að taka á móti þeim er afar léleg, eins og Páll skrifar:

Á hótelinu búa rúmlega 300 flóttamenn; í 22 litlum herbergjum, í matsalnum, í garðinum í fimm tjöldum sem Rauði krossinn hefur komið upp – og svo undir berum himni eins og Qamar. Það er ekki rafmagn, rennandi vatn eða salernisaðstaða á hótelinu. Já, velkomin til Evrópu.

Það sem af er þessu ári hafa rúmlega 100 þúsund flóttamenn komið yfir Miðjarðarhaf, á bátskænum, í leit að framtíð. Nær allir til Ítalíu og Grikklands, enda þau lönd sem næst eru Afríku og Asíu. Nokkur þúsund hafa drukknað.

Eina helgina í maí er 5.700 flóttamönnum bjargað af Miðjarðarhafi, þar af eru 620 sem koma frá Tyrklandi.

Lífið á Kos markast mjög af flóttamannavandanum:

Upp úr átta er síðan gengið í gegnum Kos-bæinn, tveggja kílómetra leið í lögreglufylgd, að Hotel Capitain Elias, þar sem fólkið er skilið eftir. Árrisulir ferðamenn, á leið í árbít, horfa undrandi á þessa skrúðgöngu. Sumum finnst truflandi, í fríi að sleikja sólina, að þurfa að mæta þessum flóttamönnum. Fjölskyldum með allt sem þær eiga í einum litlum bakpoka. Á Kos snýst lífið um ferðamenn og hefur þetta haft mikil áhrif. Í maí komu helmingi færri til Kos en í sama mánuði í fyrra.

Ég hitti lögreglustjórann í Kos fyrir utan lögreglustöðina. Þar bíða flóttamennirnir eftir að láta skrásetja sig inn í Evrópu. Ég býð kurteislega góðan dag en bregður svolítið þegar hann hækkar róminn: „Not a very good morning, no morning is now a good morning here in Kos.“

Markmið flóttamannanna er auðvitað að komast lengra áfram, norðar í álfuna. Það er ekki eftir neinu að slægjast í Grikklandi eða nágrannalöndum – þótt þar sé auðvitað ekki stríð. Einhverju broti af flóttamönnum verður hleypt til ríkra landa í Norður- og Vestur-Evrópu, Íslendingar ætla að taka á móti 50 flóttamönnum úr Miðjarðarhafi. En stemmingin er víða andsnúin flóttamönnum – meira að segja á hinum  frjálslyndu Norðurlöndum eru flokkar sem eru að einhverju leyti fjandsamlegir innflytjendum komnir til áhrifa.

En flóttamannavandinn fer síður en svo minnkandi. Það er heldur ekki hughreystandi að rifja um að það voru fávísir stjórnmálamenn á Vesturlöndum sem áttu mikinn þátt í að hleypa öllu í bál og brand í þessum heimshluta. Það er líka fátt sem bendir til þess að stríðsátökunum sé að linna, flækjustigið er óskaplega hátt, einn viðmælenda Páls, kona frá Daraa í Sýrlandi, segir að stríðið muni vara í tíu ár enn.

EP-706279981

Ein af ljósmyndum Páls Stefánssonar af flóttamönnum á eyjunni Kos.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Falleinkunn fyrir Guðrúnu – afturhaldið situr á þingi undir merkjum Sjálfstæðisflokksins

Orðið á götunni: Falleinkunn fyrir Guðrúnu – afturhaldið situr á þingi undir merkjum Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera

Dagur B. Eggertsson: Vextir á framkvæmdalánunum fjórfaldir hér á landi – látið eins og ekkert sé hægt að gera
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk

Fast skotið í Háskóla Íslands: Dauðadómur yfir bók Steinunnar Kristjánsdóttur – fræðilegt fúsk