
Airbnb byrjar sem góð hugmynd en endar sem plága. Svona þróast hlutirnir stundum.
Íbúðaleiga af þessu tagi er upprunalega svar við því hversu hótelgisting er orðin dýr – önnur ástæða fyrir henni er sívaxandi ferðamannastraumur. Hann er ekki bara á Íslandi, ónei, heldur nánast alls staðar þar sem ríkir sæmilegur friður.
Og ástæða þessa er síaukið framboð á ódýrum flugferðum. Það ekki eins dýrt að ferðast og áður, en það er óþægilegra. Alls staðar eru ferðamenn að troðast og ferðamenn að bölva öðrum ferðamönnum vegna troðningsins.
Airbnb er ein lausnin á þessu. En svo fer það alveg út í öfgar. Miðbæir eru undirlagðir af leiguíbúðum fyrir ferðamenn. Leiguverð rýkur upp. Venjulegt fólk þarf að fara annað. Þetta hefur vond áhrif á mannlífið. Staðir sem áður höfðu sinn lókal sjarma verða túristabæli.
Í raun eru hótel miklu betri kostur. Þau eru á afmörkuðum stöðum og yfirvöld skipulagsmála eiga að nokkru leyti að geta ráðið hvar þau rísa. En verðið á hótelgistingu er fjarska hátt, eins og áður segir, og hefur hækkað gríðarlega síðustu áratugi. Einhvern tíma sá ég núvirt verð á hótelherberginu sem Churchill leigði á Claridges í London. Það var þá um það bil dýrasta hótelgisting í Bretlandi. Nú myndi verðið sem Churchill greiddi þykja frekar lágt, en það var auðvitað fyrir tíma túristafársins.