
Nú er sagt frá samkomulagi um málefni Grikkja í Brussel. Grikkir virðast hafa gengið að afarkostum, verið beygðir í duftið. En það er erfitt að gera annað þegar bankar eru lokaðir vikum saman, fólk fær ekki borguð laun eða bætur, og í loftinu er hótun um að taka af þeim gjaldmiðilinn – og reiða í staðinn fram „mannúðaraðstoð“ eins og þýska stjórnin orðar það svo smekklega.
Þorvaldur Gylfason hagfræðingur skrifar á Facebook, það er erfitt annað en að taka undir orð hans. Evrópuhugsjónin er stórkostlega lemstruð eftir síðustu daga:
Nú liggur fyrir samningur milli Grikklands og ESB. Eigi að síður er talsverður skaði skeður. ESB, þýska stjórnin, Seðlabanki Evrópu og AGS hafa orðið sér til minnkunar — svo mjög, finnst mér, að ýmsir þar ættu að sjá sóma sinn í að taka pokann sinn. ESB hafði fram að þessu nokkurn veginn hreinan skjöld í augum umheimsins, en hefur nú flekkaðar hendur. Erfitt getur reynzt fyrir ESB að endurvinna traust meðal þeirra sem hafa fylgzt agndofa með hroka ESB gagnvart Grikkjum og virðingarleysi gagnvart sögulegu hlutverki sambandsins.
Annar evrópusinni, Ásgeir Brynjar Torfason, skrifar á Facebook:
Hluti af trúnni á Evrópu dó innra með mér um helgina og í morgun.