
Meira að segja í Þýskalandi eru menn farnir að viðurkenna að stjórnin, með Wolfgang Schäuble í fararbroddi, hafi gengið alltof langt. Wolfgang Münchau, einn virtasti hagfræðingur Þýskalands, skrifar bæði í Der Spiegel og Financial Times.
Greinin í Der Spiegel hefst með svofelldum orðum:
Þýsku ríkisstjórninni hefur á einni helgi tekist að gera sjötíu ár af diplómasíu eftirstríðsáranna að engu.
Þarna sé horfið aftur til þegar sterkar þjóðir beygðu hinar veiku undir vilja sinn. Schäuble hafi hegðað sér samkvæmt fleygum orðum Clauzewitz um að stjórnmál séu framhalds stríðs með öðrum aðferðum
Münchau lætur jafnaðarmenn líka heyra það og lýsir furðu sinni á því að Sigmar Gabriel, formaður SPD, hafi reynt að yfirtrompa sjálfa Merkel í fjandsamlegum yfirlýsingum gagnvart Grikklandi. Münchau segist aldrei hafa séð slíka vanhæfni í forystu flokks sósíaldemókrata
Í Financial Times segir Münchau að á þessari helgi hafi evran verið eyðilögð. Þarna hafi verið horfið aftur til togstreitu milli þjóða eins og þekktist á 19du og 20stu öld. Evran sé núna gengissamstarf sem henti Þýskalandi afar vel, en þar sem öðrum þjóðum sem halda sig ekki á línunni sé hótað tortímingu.
Schäuble hafi sett fram algjörlega klikkaða hugmynd um tímabundna brottvikningu Grikkja úr evrunni. Semsagt, eitt ríki lagði til að annað yrði rekið. Niðurstaðan hafi verið nakið valdarán innan evrusamstarfsins. Evran virki ekki lengur eins og hún átti að gera til að dýpka pólitískt samstarf aðildarríkjanna.
Allir vita að Grikkir munu aldrei getað farið eftir áætluninni sem samþykkt var í gær. Það er engin stjórn í Grikklandi sem hefur umboð til þess, þessar tillögur eru ennþá verri en þær sem var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Áætlunin er líka algjörlega óraunhæf og óframkvæmanleg, eins og Larry Elliott lýsir í Guardian. Hann nefnir að Grikkir eigi að selja ríkiseignir fyrir 50 milljarða evra á næstu þremur árum. Þarna eru meðal annars flugvellir, hafnir og bankar. Verðmæti þessa alls er óvíst í þessu ástandi. Eliott segir að þetta sé engin lausn, heldur líkir þessu við ljósskímu sem lýsir inn í skuldafangelsi.
En grein sína byrjar Elliott með mikilli kaldhæðni:
Keynes var aldrei til. Altæka kenningin um atvinnu vexti og peninga var aldrei skrifuð. Hagsagan endaði daginn sem Franklin Roosevelt tók við af Herbert Hoover sem forseti Bandaríkjanna.
Þetta er inntak samkomulagsins sem á að halda Grikklandi í evrunni, samninga sem munu dýpka kreppuna í landinu, gera skuldastöðu þess ennþá verri og tryggja að vandamálin komi aftur upp á yfirborðið innan skamms.