
Alexis Tsipras hefur einungis verið forsætisráðherra Grikklands síðan í janúar. Hann er formaður nýs stjórnmálaflokks sem nefnist Syriza, flokkurinn hefur verið kenndur við „nýtt vinstri“, það er að rísa víða í Evrópu á sama tíma og flokkar sósíaldemókrata eru hugmyndafræðilega gjaldþrota og lagstir í teknókratisma eftir tíma manna eins og Tonys Blair og Gerhards Schröder.
Að nokkru leyti má segja að hin snögga framrás forsetaefnisins Bernies Sanders í Bandaríkjunum rími við uppgang nýs vinstris í Evrópu. Ótrúlegur kraftur hefur færst í baráttu Sanders sem þiggur enga peninga frá auðfyrirtækjum eða bönkum – hann talar hvarvetna fyrir fullum húsum.
Alexis Tsipras mátti sitja undir skammarlegri ræðu á Evrópuþinginu í gær frá fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu,manni að nafni Guy Verhofstadt. Hann er einn af holdgervingum Evrópusambands sem hefur gleymt hugsjónum sínum og liggur flatt fyrir fjármálaöflunum. Annar er Jean-Claude Juncker – fulltrúi sjálfrar skattaparadísarinnar í Lúxemborg. Allt sem hann gerir virkar hjárænulegt, líka þegar hann situr á ljómandi skemmtilegum fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.
Þessum mönnum er meinilla við Tsipras og hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að losna við hann. Þeir óttast að hreyfingar eins og Syriza kunni að rísa upp víðar í Evrópu. Á Spáni höfum við Podemos og að vissu leyti má segja að framrás Pírata á Íslandi sé af sama meiði.
Tsipras talaði með mestu ró á Evrópuþinginu þótt hann sæti undir skammarflaumnum frá Belganum, ræða hans var mjög hófstillt. Hann var heldur ekkert að bera í bætifláka fyrir spillta stjórnmálamenningu í Grikklandi, enda er Syriza ekki hluti af henni, heldur í raun andsvar við henni, ekki síst af hálfu ungs fólks. Tsipras er í raun óskoraður leiðtogi Grikklands eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um síðustu helgi:
Ég er ekki einn þeirra stjórnmálamanna sem held því fram að „vondir útlendingar“ séu ábyrgir fyrir vanda þjóðar minnar. Grikkland er á barmi gjaldþrots vegna þess að fyrri stjórnir í Grikklandi skópu ríki sem byggir á fyrirgreiðslupólitík, þær iðkuðu spillingu og studdu hana, þær umbáru eða studdu samkrull stjórnmála og auðugrar elítu, og skattaundanskot voru látin átölulaus þótt um gríðarlegar fjárhæðir væri að ræða.