
Norður-Evrópubúum er tamt að líta niður á fólk sem býr syðst í álfunni. Þá sem búa á Suður-Ítalíu, Andalúsíumenn á Spáni – og Grikki. Þetta er ekkert nýtt. Bjarni Thorarensen orti í kvæðinu Þú nafnkunna landið um hið harðgera norðurfólk – sem er þá andstæða við meyra suðurlandabúa sem samkvæmt skáldinu stunda „læpuskaps ódyggðir“.
Norræni hrokinn lætur ekki að sér hæða – ég hef til sjaldan heyrt viðlíka fordóma gagnvart einni þjóð og ég hef upplifað gegn Grikkjum síðustu vikurnar. Hvarvetna les maður að þeir séu latir, spilltir og sérhlífnir – eigi ekkert gott skilið.
Í kvöld var ég í veislu að grískum hætti. Það var etið, drukkið, og dansað við þjóðlega tónlist – Grikkir eiga afar fjölbreytilega tónlist, þeir þiggja hana ekki alla frá hinum enskumælandi heimi. Þarna var leikið á fiðlur, lútu og bousouki – lögin öll héðan frá eyjunum og fólk syngur með frá hjartanu.
Þegar færðist fjör í leikinn voru brotnir diskar og dansað á glerbrotunum. Hjá Grikkjum kynnist maður lífsnautn sem er miklu innilegri og dýpri en gengur og gerist í Norður-Evrópu. Ungir og aldnir eru saman – kannski vegna þess að stóran hluta árs er hægt að njóta samveru á torgum úti. Sá sem leiddi dansinn var maður um sjötugt, yngsti dansarinn hefur varla verið eldri en tíu ára. Allt var þetta einhvern veginn af sjálfu sér – óþvingað.
Að mörgu leyti er þetta skemmtilegra fólk en við, það kann betur að njóta lífsins og þarf minna til.
Enginn skyldi halda Grikkir vinni ekki. Grikkir eru upp til hópa harðduglegt fólk. Það er minnst við almenning hér að sakast að landið hefur lent í skuldadíki. Hann hefur ekki fengið aurana í sinn hlut. Það er talað um Grikki sem lifi í vellystingum á eftirlaunum – en hætt er að margir í norðurálfu yrðu hissa ef þeir heyrðu hvaða upphæðir er um að tefla.
Og það er kannski ekki furða að hinum almenna Vassilis eða Yorgos bregði við þegar honum er tilkynnt að hann skuldi milljarða á milljarða ofan og það í evrum.
Maður láir honum varla þótt hann segi nei.
En við lifum auðvitað í heimi stórkapítalsins þar sem allt er að drukkna í skuldum, bæði einstaklingar og þjóðir – sjálft kerfið gengur út á það.
Hjá Grikkjum er líka stutt í angurværð, sorg og efa sem er tjáð í ótrúlega ríkri hefð söngva og ljóða, enda er að finna miklar hörmungar í sögu Grikklands. Þetta er lag og ljóð eftir söngvarann Sokratis Malamas og nefnist Fyrir Grikkland.